Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu beinir því til fólks að kanna hvort niðurföll utandyra séu ekki örugglega hrein og geti tekið við vatni þar sem hlýnandi veðri með úrkomu er spáð á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Þessi einfalda aðgerð fólks „gæti komið í veg fyrir skemmdir og heimsókn frá okkur,“ segir í færslu Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu á Facebook.
Nóg hefur verið að gera hjá slökkviliðinu sl. sólarhring og segir slökkviliðið hann hafa verið „ansi líflegan“.
„Heildarfjöldi sjúkraflutninga var 170 og við fluttum alls 33 í Covid-bílunum okkar.
Fjöldi útkalla á slökkvibílana var 8, þar má telja 2 umferðarslys þar sem þurfti að beita björgunarklippum til að ná ökumanni úr bíl í öðru slysinu, vatnsleka, bilun í kælivél og viðvörunarkerfi í gangi vegna eldamennsku.“