Hálka er á götum, gangstéttum, göngu- og hjólreiðastígum borgarinnar í dag en nokkuð var um umferðarslys vegna hálku í gærkvöldi og í nótt. Slysin ollu eignatjóni en engum alvarlegum meiðslum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minnir íbúa af þessu tilefni á að snjóhreinsa bíla sína vel áður en þeir leggja af stað út í umferðina.
„Einnig bendum við vegfarendum á að hálka er á götum, gangstéttum, göngu- og hjólreiðastígum á höfuðborgarsvæðinu.“
Þá óskar lögreglan þess að fólk fari varlega og verði þolinmótt í umferðinni í dag.
Eins og mbl.is greindi frá í morgun hefur Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins einnig mælst til þess að fólk moki frá niðurföllum vegna hlýnandi veðurs. Slíkt gæti komið í veg fyrir heimsókn frá slökkviliðinu.