Ægivald alþjóðlegra tæknirisa er mikið eins og Begga Rist hjá Hamphúsinu í Síðumúla getur vottað fyrir. Facebook-auglýsingareikningi verslunarinnar, sem selur hina ýmsu muni gerða úr hampi, var lokað nýverið.
Líklegt má þykja að Facebook hafi haldið að Hamphúsið auglýsti marijúana til sölu. Það er auðvitað alls ekki raunin, eins og sjá má á vefverslun Hamphússins, þar sem aðallega eru auglýstir þvottapokar, viskastykki, varasalvar og hundaólar úr hampi.
„Með svona nýstofnað fyrirtæki er betra að geta komið sér almennilega á kortið,“ segir Begga við mbl.is um inngrip Facebook og bætir við að sérstaklega erfitt yrði að geta ekki auglýst nú þegar jólin eru á næsta leiti.
Begga setti sig í samband við Facebook sem leiðrétti mistökin, en þrátt fyrir það eru fyrri auglýsingar Hamphússins á Facebook ekki komnar aftur í loftið.
„Við vonum bara að það lagist sem fyrst,“ segir Begga.
Fyrr á þessu ári var greint frá því að Facebook hafi lokað fyrir auglýsingar Þjóðleikhússins á sýningunni Nashyrningarnir, í leikstjórn Benedikts Erlingssonar.
Þar hélt algrími tæknirisans að Þjóleikhúsið væri að auglýsa ólögleg viðskipti með nashyrningahorn. Svo var auðvitað ekki.
Beggu hjá Hamphúsinu kemur misskilningur Facebook kannski ekki mikið á óvart enda segir hún að iðnaðarhampur og notagidi hans flækist oft fyrir fólki.
„Það hefur náttúrulega lengi verið mikill ruglingur og misskilningur hjá mörgum varðandi hampinn,“ segir Begga.
„Við áttum okkur nú á því að það þurfi að útskýra aðeins fyrir fólki – og Facebook greinilega líka – hvað hampurinn er frábær.“