Íbúar Dalvíkur hvattir til að gæta að sér

Veiran veldur nú vanda á Dalvík.
Veiran veldur nú vanda á Dalvík. mbl.is/Sigurður Bogi

Á þriðja tug íbúa Dalvíkurbyggðar hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni og vinnur rakningateymi að því að rekja smitleiðir.

Frá þessu greinir lögreglan á Norðurlandi eystra í tilkynningu en þar eru íbúar hvattir til að gæta sérstaklega vel að sér, huga að smitvörnum og slá mannamótum á frest.

„Forsvarsmenn Dalvíkurbyggðar settu sig strax í morgun í samband við helstu vinnuveitendur á svæðinu og vöktu athygli þeirra á stöðunni og hvöttu þá til aðgæslu og á það sannarlega við áfram,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Lokað vegna smita

Um leið er bent á að nokkur smit hafi komið upp á Raufarhöfn og Kópaskeri. Eru íbúar þar sömuleiðis hvattir til að gæta sérstaklega að sér.

Greint var frá því fyrr í dag að Dalvíkurskóla og Tónlistarskóla Tröllaskaga hefði verið lokað vegna smitanna. Að auki hefur dvalarheimilið Dalbær lokað dyrum sínum fyrir heimsóknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert