Ísland er orðið dökkrautt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu um þróun heimsfaraldurs Covid-19 í álfunni, sem uppfært var rétt í þessu. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland er á þessu hæsta hættustigi stofnunarinnar.
Stuðst er við samræmdan litakóða þar sem lönd eru flokkuð í mismunandi hættuflokka eftir nýgengi smita og hlutfalli jákvæðra sýna. Ísland var fyrir daginn í dag rauðmerkt.
Dökkrauð merking þýðir að fjórtán daga nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa sé yfir fimm hundruð.
Nýgengi innanlandssmita er nú 562,3 samkvæmt covid.is, upplýsingavef almannavarna um faraldurinn.
Litakóðunarkerfið hefur þann tilgang að veita upplýsingar um stöðu heimsfaraldursins í hverju landi fyrir sig svo hægt sé að bera þau saman og átta sig á aðstæðum.