Manuela Ósk sýknuð í Hæstarétti

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Jón Pétur

Hæstiréttur staðfesti í dag sýknu á hendur Manuelu Ósk Harðardóttur fyrir tálmun. 

Manuela Ósk var ákærð, fyrir að hafa með því að flytjast til Bandaríkjanna með börnin sín tvö án leyfis barnsfeðra sinna, og þannig svipt barnsfeður sína tvo valdi og umsjá barna sinna, brotið 193. grein almennra hegningalaga. Greininni hefur ekki áður verið beitt í tálmunarmáli.

Í refsiákvæðinu segir að „hver sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðila valdi eða umsjá yfir barni sem er ósjálfráða fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt“. 

Var Manuela Ósk sýknuð bæði í héraði og í Landsrétti en var leyfi veitt til áfrýjunar í Hæstarétti vegna fordæmisgildis málsins. 

Í dómi Hæstaréttar kom fram að ótvírætt væri að refsinæmi 193. greinarinnar væri einskorðað við brot gegn foreldravaldi yfir barni. Voru þó bæði börn Manuelu með lögheimili hjá henni en forsjá foreldra sameiginleg. 

Niðurstaða dómsins var sú að ljóst væri af ákvæði 1. mgr. 28. gr. barnalaga og lögskýringargögnum að það foreldri sem barn væri með lögheimili hjá hefði ríkari rétt til að taka ákvarðanir um málefni þess. Því var staðfestur hinn áfrýjaði dómur um sýknu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert