Mest eignatjón í hálkunni

Nokkuð var um umferðaróhöpp í öllum hverfum höfuðborgarsvæðisins í gærkvöldi og í nótt vegna hálku og fleiri ástæðna, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Engin alvarleg slys urðu þó á fólki en eitthvað var um eignatjón. 

Í dagbókinni segir sömuleiðis að lögreglunni hafi borist tilkynning laust eftir klukkan hálftíu í gærkvöldi um líkamsárás við veitingahús í Laugardal þar sem tvær konur réðust á mann og veittu honum áverka.

Stuttu síðar voru afskipti höfð af tveimur ungum mönnum við skóla í Vallahverfi í Hafnarfirði. Annar maðurinn er grunaður um líkamsárás og hinn um tálmun opinbers starfsmanns. Sá sem varð fyrir árásinni var með roða í andliti eftir högg. Hann ætlaði sér að sækja áverkavottorð á sjúkrastofnun. „Þá mun árásaraðili einnig hafa veitt lögreglumönnum áverka er hann var handtekinn,“ segir í dagbókinni.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert