Um 70% þeirra sem hafa verið boðuð í örvunarbólusetningu gegn Covid-19, þ.e. þriðja skammtinn, í Laugardalshöll undanfarið hafa þegið sinn skammt. Sóttvarnalæknir vonaðist til betri þátttöku. Honum líst „þokkalega“ á stöðuna á faraldrinum og er hann ekki með hertar sóttvarnaaðgerðir á teikniborðinu sem stendur.
„Það eru allar vísbendingar sem segja okkur það að vörnin bæði fyrir einstaklinga og samfélagið verði enn betri eftir þriðja skammtinn en skammt númer tvö. Ég held að það sé til mikils að vinna að fólk mæti og fái bólusetninguna svo það verði betur varið,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.
Hversu mikilvægt myndir þú segja að það væri á skalanum einn upp í tíu?
„Ég myndi segja tíu.“
126 greindust smituð af kórónuveirunni innanlands í gær, heldur færri en dagana á undan. Aðspurður segir Þórólfur að honum lítist „þokkalega“ á stöðuna.
„Það er náttúrulega ánægjulegt að þetta sé aðeins lægra en þetta var en þetta sveiflast alltaf svolítið á milli daga. Ég vona að þróunin sé sú að þetta sé að fara niður, þess væri óskandi. Við þurfum að sjá hvernig þetta verður í dag og á morgun og svo búumst við náttúrulega við heldur lægri tölum um helgina eins og venjulega. Svo er það oft þannig að tölurnar fara upp strax eftir helgarnar þannig að það eru sveiflur í þessu en ég vona að þróunin verði áfram niður á við.“
Þá segir Þórólfur að smitin séu á víð og dreif um samfélagið.
„Við sjáum að það er um helmingurinn í sóttkví eins og áður og á milli fimm og 10% af sýnunum sem eru tekin eru jákvæð sem er merki um það að þetta er mjög víða.“
Fyrir rúmri viku síðan tóku hertar sóttvarnaaðgerðir gildi innanlands. Þórólfur segir að eftir helgi verði hægt að segja til um það hvort þær hafi borið árangur. Sem stendur er hann ekki að horfa til þess að herða sóttvarnaaðgerðir hér innanlands.
„Mér finnst fólk almennt vera að passa sig mjög vel. Maður sér að grímunotkun virðist vera orðin almenn. Ég veit að fólk hefur verið að aflýsa alls konar viðburðum sem það er að halda sjálft eða afbóka komu sína á ýmsa viðburði. Það er í sjálfu sér merki um að fólk tekur þetta alvarlega og sér að þetta er ekki búið og við erum enn í baráttunni.“
Staðan á Landspítala er enn þung en þrír sjúklingar lögðust þangað inn með Covid-19 í gær. Þar liggja nú 20 einstaklingar, þar af fjórir á gjörgæslu en þeir eru allir í öndunarvél. Þórólfur segir að það geti tekið eina til tvær vikur að innlögnum fari að fækka eftir að smitum fer að fækka.
„Það tekur svolítinn tíma fyrir spítalann að sjá afleiðingarnar af aðgerðum,“ segir Þórólfur.