Niðurstaða nefndarinnar kynnt á þriðjudag

Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar, segir að engin niðurstaða hafi …
Birgir Ármannsson, formaður undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar, segir að engin niðurstaða hafi orðið ljós á fundi nefndarinnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engin niðurstaða fékkst í máli undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar á fundi hennar í dag. Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, segir að enn sé unnið að niðurstöðu sem verði kynnt á þriðjudag þegar nýtt þing kemur saman. 

„Við eigum eftir að funda aftur. Niðurstöður liggja ekki fyrir,“ segir Birgir við mbl.is. 

„Það er eins og með allt, þetta er ekkert búið fyrr en þetta er búið. En við erum langt komin,“ segir hann einnig. 

Birgir segir að fyrirhugað sé að nefndin fundi aftur á morgun.

Niðurstaða eða ekki niðurstaða?

Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir þó að niðurstaða nefndarinnar sé ljós. Hún á sjálf ekki sæti í nefndinni en segir að sér hafi orðið þetta ljóst á fundi þingflokksformanna með forseta Íslands í gær. 

„Það er kom­in niðurstaða í und­ir­bún­ings­kjör­bréfa­nefnd­inni. En rík­is­stjórn­in er ekki til­bú­in með fjár­lög og treyst­ir sér ekki til að leggja fram fjár­lög fyrr en eft­ir þrjár vik­ur. Þá átt­ar maður allt í einu á því að þetta skjól, sem þau hafa sagt að hafi verið vegna stöðunn­ar í Norðvest­ur­kjör­dæmi, virðist vera vegna þess að þau geti ekki komið sér sam­an um hvernig þau sjái fyr­ir sér að reka þetta sam­fé­lag,“ sagði Helga Vala við mbl.is í morgun. 

Inntur eftir viðbrögðum um frétt Vísis þar sem sagði að nefndin ynni að tveimur tillögum þar sem annars vegar er lagt til endurtalning í Norðvesturkjördæmi stæði og hins vegar að kosið yrði aftur, segir Birgir að of snemmt sé að tjá sig um slíkt. 

„Mér finnst alveg ótímabært að segja nokkuð um það, vegna þess að það er ennþá verið að vinna í málinu, það eiga sér stað umræður innan nefndarinnar. Ég get því ekki sagt til um það á þessari stundu hversu margar tillögur eða mörg mismunandi sjónarmið munu koma út úr starfi nefndarinnar,“ segir Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert