Útlit er fyrir austlæga átt á landinu í dag og vindhraða innan við 10 metra á sekúndu, samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
„Rigning eða slydda með köflum á sunnanverðu landinu og snjókoma í uppsveitum. Hiti 0 til 5 stig. Þurrt og kalt norðan til framan af degi, en fer að snjóa þar eftir hádegi með minnkandi frosti.“
Þá spáir veðurstofan suðvestan 5 til 10 metrum á sekúndu á morgun og skúrum eða éli, en þurru veðri austanlands.
„Ákveðnari vindur á Vestfjörðum, norðaustanstrekkingur þar með éljagangi. Hiti kringum frostmark, en hiti að 5 stigum við suður- og vesturströndina,“ segir í hugleiðingunum og jafnframt:
„Á laugardag er síðan útlit fyrir ákveðna norðanátt á landinu. Léttskýjað og fallegt veður sunnan- og vestanlands, en él á Norður- og Austurlandi. Frost um allt land.“