Segir ekkert gerast uppi á spítala

Tómas Guðbjartsson yfirlæknir á Landspítala.
Tómas Guðbjartsson yfirlæknir á Landspítala. mbl.is/RAX

Tómas Guðbjartsson yfirlæknir á Landspítala telur jafnvel þörf á að neyðarstjórn verði skipuð yfir spítalanum. Hann segir ástandið alvarlegt og að það sem honum þyki verst sé að ekkert virðist gerast þar.

„Við erum að bíða eftir þessum úrslitum í Norðvesturkjördæmi, forstjórinn er hættur og við vitum ekki hver verður heilbrigðisráðherra, þetta er bara eins og ég sagði um daginn, við upplifum okkur með skrúfu í netinu og okkur rekur upp að klettóttri strönd,“ sagði Tómas í Kastljósi fyrr í kvöld þar sem hann og Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamaður ræddu um stöðu Landspítala.

Sammála um slæmt ástand

Tómas og Björn Ingi gátu sammælst um ýmsa þætti og töldu þeir báðir ástandið á Landspítalanum vera afar slæmt.

Sagði Björn Ingi meðal annars að samfélagið, margar ríkisstjórnir, heilbrigðisráðherra og stjórnendur hefði brugðist spítalanum.

„Það má mjög lítið gerast til þess að Landspítalinn sé algjörlega á hliðinni.“

Ósammála um hvernig upplýsingum væri miðlað 

Þeir voru þó ósammála um það hvernig ástandinu á spítalanum væri miðlað til almennings.

Tómas taldi mikilvægt að vekja athygli á ástandinu á spítalanum enda væri það að nálgast neyðarástand. Björn Ingi vildi þó frekar að vandinn yrði leystur í stað þess að sífellt væri talað um hann.

Vísaði Björn Ingi þá meðal annars til þess hvernig Færeyingar hefðu meðhöndlað ástandið sem ríkir nú þar. Nýgengi smita í Færeyjum var í kringum tvö þúsund í síðustu viku en til samanburðar er nýgengi smita hér í um 500. Hann segir þó heilbrigðisyfirvöld hafa beðið almenning um að fara ekki á taugum.

Tómas taldi þekki hægt að bera saman Færeyjar og Ísland enda væru heilbrigðiskerfin okkar ekki sambærileg. Til dæmis væru ekki gerðar opnar hjartaaðgerðir í Færeyjum og hefur gjörgæslan þeirra ekki verið jafn aðþrengd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert