Hlutfall þeirra er boðaðir hafa verið í örvunarskammt með bóluefni gegn Covid-19 hefur ekki hækkað frá því að bólusetningarátakið hófst á mánudag. Hefur meðaltalið haldist í kringum 67-68% í vikunni. Þetta staðfestir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Síðustu þrjá daga hafa bólusetningar með örvunarskammta staðið yfir í Laugardagshöll og hefur fólk eldra en 60 ára og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma verið boðaðir, en bólusett verður mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga næstu þrjár vikurnar. Hefur mætingin hingað til verið undir væntingum sóttvarnalæknis.
Að sögn Ragnheiðar hefur þó ferlið gengið afar vel fyrir sig og hefur heilbrigðisstarfsfólki tekist að anna þeim fjölda vel sem hefur mætt í örvunarskammt. Ekki hefur því borið á þessum miklu röðum er mynduðust í sumar.
Aðspurð kveðst Ragnheiður ekki hafa orðið var við miklar áhyggjur meðal þeirra sem hafa mætt, þess þó heldur hefur ferlið gengið vel og hafa flestir verið jákvæðir.
„Fólk er bara ótrúlega rólegt og kann orðið á þetta. Það hefur verið ljúft að vera í höllinni. Bæði starfsfólk og gestir kunna á þetta og þekkja þetta.“
Hefur þá verið gætt vel að sóttvörnum en í byrjun hvers dags hafa starfsmenn farið í hraðpróf til að fyrirbyggja það að smit komi upp í hópnum. Þá hafa gestir einnig verið duglegir við að passa bilið í röðum, snúa í rétta átt og koma með grímur. „Þetta er flott að sjá og hefur gengið vel.“
Þó svo að átakið standi einungis yfir fyrstu þrjá virku daga vikunnar hafa um fimm hundruð manns lagt leið sína í Laugardalshöllina í dag til að fá bólusetningu eða örvunarskammt.
„Við erum með smá björgunarlínu fimmtudaga og föstudaga, þar sem að mjög fáir hjúkrunarfræðingar eru áfram í höllinni. Þá eru mjög sérstök tilfelli ef að eitthvað gengur ekki hina dagana,“ segir Ragnheiður.