Barnafjölskyldur telja álagið hafa aukist mest

Tæplega fjórir af hverjum fimm telja álag vegna heimilisstarfa vera …
Tæplega fjórir af hverjum fimm telja álag vegna heimilisstarfa vera svipað og fyrir kórónuveirufaraldurinn. Ljósmynd/Jóra Jóhannsdóttir

Samtals 76% kvenna og 80% karla töldu að álag af heimilisstörfum vera svipað og það var fyrir faraldurinn í könnun Hagstofunnar sem gerð var í vor.

Um 15% beggja kynja taldi álagið hins vegara hafa aukist. Töluverður munur var hins vegar á svörum eftir því hvort um barnafjölskyldur var að ræða eða ekki. Þannig sögðu um fjórðungur þeirra sem voru með barn eða börn á heimilinu að álagið hefði aukist, en aðeins um 10% þeirra heimila sem ekki voru með börn.

Að meðaltali verja konur 9,2 klukkustundum á viku í heimilisstörf og karlar 7,1 klukkustund. Þeir sem búa einir verja minni tíma í heimilisstörf en fólk í sambúð og fólk í sambúð með börn á heimilinu meiri tíma en sambúðarfólk án barna. Hefur það nokkuð meiri áhrif á konur en karla, en konur í sambúð með börn verja 2,8 klukkutímum meira í heimilisstörf en konur í sambúð án barna, á meðan munurinn á milli karla í sömu stöðum er 2,4 klukkustundir.

Karlar sáttari við eigið framlag

Um 55% telja að þau geri u.þ.b. sinn hluta og er ekki munur á þessu hlutfalli eftir búsetu. Hins vegar, þegar litið er til kyns, eru karlar umtalsvert líklegri til þess að vera sáttir við sitt framlag eða 62% á móti 49% kvenna. Konur eru á móti líklegri til þess að telja sig gera meira en þeim ber því 46% kvenna segjast gera meira en sinn hluta en 9% karla. Auk þess finnst næstum þriðjungi karla, eða 29%, þeir gera minna en þeim ber en aðeins 6% kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert