Biskupsstofa sýknuð af kröfum fyrrverandi starfsmanns

Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Biskupsstofa var í gær sýknuð í héraðsdómi af kröfu fyrrverandi verkefnastjóra Biskupsstofu, Magnhildar Sigurbjörnsdóttur, sem var sagt upp í fyrra eftir 21 ár í starfi.

Deilt var um hvort lög um opinbera starfsmenn giltu enn, en ári áður hafði íslenska ríkið og þjóðkirkjan gert með sér samkomulag sem fól m.a. í sér að kirkjan hafði sjálfstæðan fjárhag og bar að fullu ábyrgð á eigin fjármálum og myndi ákveða fjölda starfsmanna sinna. Það hafði í för með sér að starfsmenn kirkjunnar urðu starfsmenn á almennum vinnumarkaði en ekki ríkisstarfsmenn.

Samkomulag ríkis og kirkju var gert í september 2019. Magnhildi og öðrum starfsmönnum Biskupsstofu barst svo bréf í lok árs 2019 um gerð nýrra ráðningarsamninga þar sem þeim var greint frá breytingum á skipulagi kirkjunnar og hvaða áhrif það hefði á starfsmannamál. Þannig yrðu starfsmenn hennar ekki lengur ríkisstarfsmenn eða embættismenn ríkisins, heldur starfsmenn á almennum vinnumarkaði.

Nýr ráðningasamningur í fyrra

Í málinu er hins vegar deilt um orðalag í bréfinu sem sent var. Þar segir meðal annars: „Starfið sem þér er boðið, er sama starf sem þú sinntir áður. Þannig flytjast öll þau réttindi sem þú hefur áunnið þér, sem og allar skyldur sem þínu starfi hafa fylgt yfir til Þjóðkirkjunnar – biskupsstofu.“ Því næst segir: „Hinu nýja starfi fylgja öll sömu launakjör og þú hafðir áður og laun og önnur kjör munu eftir sem áður taka mið af viðeigandi kjarasamningi. Það sama á við um m.a. áunnið orlof og áunninn veikindarétt. Verið er að vinna að nýrri skipan mála hvað varðar fyrirkomulag kjaramála starfsfólks, sem bréf þetta tekur til.“

Bæði Magnhildur og þáverandi mannauðsstjóri biskupsstofu undirrituðu nýjan ráðningarsamning í byrjun árs 2020, en þar sagði jafnframt: „Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins munu gilda um starfið, eftir því sem við á fram til 31. mars 2020, eða þar til kirkjuþing hefur sett nýjar starfsreglur.“

Taldi sig ekki hafa notið andmælaréttar

Magnhildi var svo sagt upp í nóvember 2020, en ágreiningslaust er að kirkjuþing hafði ekki sett sér slíkar reglur þegar Magnhildi var sagt upp. Taldi Magnhildur þar með að ekki væri uppfyllt skilyrði um að kirkjuþing ætti að setja nýjar starfsreglur og hún væri því enn opinber starfsmaður. Taldi hún sig ekki hafa notið andmælaréttar í aðdraganda uppsagnar né hafi verið gætt að meðalhófi. Fór hún fram á 70 milljónir í skaðabætur, en til vara 17 milljónir.

Átti að vera ljóst hvað fælist í nýju fyrirkomulagi

Í dómi héraðsdóms segir að þótt að í bréfi biskups segði að öll þau réttindi sem Magnhildur hefði áunnið sér myndu fylgja hinu nýja starfi þá var þess skilmerkilega getið í upphafi bréfsins að nýtt fyrirkomulag í starfsmannamálum fæli í sér að starfsmenn stefnda teldust ekki lengur vera ríkisstarfsmenn eða embættismenn ríkisins heldur starfsfólk á almennum vinnumarkaði. Hefði Magnhildur því mátt ráða af bréfinu að nýr ráðningarsamningur væri gagngert gerður til að breyta réttarstöðu hennar að þessu leyti.

Þá segir dómurinn að af lögskýringargögnum í tengslum við samkomulag ríkis og kirkju hafi login átt að taka gildi 1. janúar 2020, en að kirkjunni hafi verið veittur tími til 31. mars til að setja starfsreglur. „Af orðskýringu ákvæðisins leiðir að það var sá atburður sem fyrr ætti sér stað sem leiða myndi til þess að lög nr. 70/1996 giltu ekki lengur um starf stefnanda, enda hefði engin nauðsyn staðið til þess að tiltaka nokkurt tímamark í þessum efnum ef einfaldlega hefði átt að tryggja stefnanda fortakslausan rétt samkvæmt framangreindum lögum þar til kirkjuþing hefði sett nýjar starfsreglur,” segir í dóminum.

Að þessu virtu telur dómurinn að biskupsstofu hafi verið heimilt að setja Magnhildi upp gegn greiðslu launa á uppsagnarfresti, eins og raunin varð, og er því biskupsstofa sýknuð af öllum kröfum um bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert