Stéttarfélagið BSRB vill sjá auðlegðarskatt á stóreignafólk og að veiðigjöld verði aukin verulega í viðleitni til að auka fjárveitingar til almannaþjónustunnar „til að koma íslensku samfélagi út úr heimsfaraldrinum.“
Þetta kemur fram í ályktun formannaráðs bandalagsins sem segir að starfsfólk almannaþjónustunnar hafi verið undir gríðarlegu álagi undanfarið og undirmönnun sé víða vandamál. Þá telur BSRB það vera pólitíska ákvörðun að tryggja ekki nægt fjármagn til að standa undir þjónustu við almenning og það dragi úr velsæld og möguleikum til verðmætasköpunar.
„Frá því heimsfaraldurinn skall á hafa eignir heimilanna aukist um á þriðja hundrað milljarða króna og langmest af þeirri aukningu fór til þeirra allra ríkustu,“ segir meðal annars í ályktun formannaráðsins, sem samþykkt var á fundi þess í gær.
„Reynslan af bankakreppunni 2008 sýnir að það voru mistök að skera niður í almannaþjónustu og af þeim mistökum verðum við að læra,“ segir í tilkynnningu frá BSRB um ályktunina.