Búið að brýna hnífana í samfélaginu

Reynir Lyngdal og Vilhelm Netó við tökur.
Reynir Lyngdal og Vilhelm Netó við tökur. Ljósmynd/Jói B

Tökur á Áramótaskaupi Sjónvarpsins hófust í byrjun vikunnar og fara vel af stað að sögn leikstjórans Reynis Lyngdal. „Við erum búin að mynda í þrjá daga og verðum að næstu tvær vikur. Svo er það sama sagan og alltaf, við vonum svo innilega að ekkert afdrífaríkt gerist í samfélaginu svo við getum haldið okkur við það sem erum búin að skrifa,“ segir leikstjórinn í samtali við Morgunblaðið en viðurkennir um leið að það sé eiginlega regla frekar en hitt að taka þurfi upp nýtt efni á lokametrunum.

„Já, í fyrra var fjármálaráðherra að vesenast í einhverju partíi og við þurftum að kommenta eitthvað á það. Við erum með varnagla til að geta brugðist við.“

Þetta verður þriðja árið í röð sem Reynir leikstýrir Áramótaskaupinu en höfundar þess í ár eru Vilhelm Neto, Bergur Ebbi Benediktsson, Hugleikur Dagsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Gagga Jónsdóttir og Lóa Hjálmtýsdóttir. Republik sér um framleiðsluna.

„Ég get náttúrulega ekkert sagt um hvað verður í Skaupinu. Það verður þó einhver ponsu pólitík og hugsanlega eitthvað sem snýr að eldhræringum. Svo verður mikið sungið og glensað,“ segir leikstjórinn sem setur upp íbyggið glott þegar hann er spurður hvort talning atkvæða í alþingiskosningunum og starf undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar kunni að bera á góma. „Það er aldrei að vita,“ segir hann einfaldlega.

Reynir kveðst skynja aðra stemningu í þjóðfélaginu í ár en í fyrra. „Þetta ár er öðruvísi. Í fyrra skynjaði maður samstöðu en nú er aðeins búið að brýna hnífana. Ég veit ekki hvort það er vegna einhvers Covid-óþols en tilfinning mín er að það sé aðeins harðar tekið á ýmsum málum. Það er komið að einhvers konar suðupunkti.“

Við tökur. Hér sést Katla Margrét Þorgeirsdóttir í forgrunni.
Við tökur. Hér sést Katla Margrét Þorgeirsdóttir í forgrunni. Ljósmynd/Jói B
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert