Á bilinu 6 til 40 einstaklingar greinast með jákvæða niðurstöðu úr hraðprófum á dag vegna kórónuveirusýkingar, að sögn Ingibjargar Salóme Steindórsdóttur, verkefnastjóra sýnatöku hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Aðsókn í hraðpróf hefur aukist síðustu daga í kjölfar hertra sóttvarnaaðgerða. Þá hafa fleiri einkennalausir greinst með jákvæða niðurstöðu úr hraðprófum samhliða hækkandi smittíðni í samfélaginu.
Ingibjörg segir ekki hægt að draga þá ályktun, að tilkoma hraðprófanna hafi gert það að verkum að hlutfallslega fleiri smit greinist hér á landi en áður.
Ekki er þó enn búið að taka saman tölfræði um fjölda sýna sem er tekinn á dag með hraðprófum eða greiningarhlutfall þeirra.
Hertar sóttvarnaaðgerðir tóku gildi innanlands fyrir rúmri viku. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í sasmtali við mbl.is í gær að eftir helgi verði hægt að segja til um hvort að þær hafi borið árangur. Sem stendur horfir hann ekki til þess að herða aðgerðir en hann segir jákvæð teikn á lofti um að fólk sé að passa sig.
„Maður sér að grímunotkun virðist vera orðin almenn. Ég veit að fólk hefur verið að aflýsa alls konar viðburðum sem það er að halda sjálft eða afbóka komu sína á ýmsa viðburði,“ sagði Þórólfur.