Fleiri uppsagnir á bráðamóttöku

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum.
Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Uppsögnum á meðal hjúkrunarfræðinga sem starfa á bráðamóttöku Landspítalans hefur fjölgað síðustu daga og í dag. Þetta staðfestir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í ríkisútvarpinu í morgun að samtals hafi, sem samsvarar fimm stöðugildum hjúkrunarfræðinga, sagt störfum sínum lausum á Landspítalanum.

Síðan þá hefur bæst í fjölda uppsagna og hjúkrunarfræðingar minnkað við sig starfshlutfall. 

„Þetta er dálítið á hreyfingu og það er erfitt að segja til um nákvæma tölu á hverjum tíma en það hefur aðeins fjölgað,“ segir Sigríður.  „Við tökum þessari stöðu mjög alvarlega og viljum engan missa,“ bætir hún við.

Fyrst og fremst vegna aðstæðna og álags

Hún segir að í gegnum tíðina hafi verið eftirsótt að starfa á bráðarmóttökunni á meðal heilbrigðisstarfsfólks en erfitt sé að ráða hjúkrunarfræðinga í alla starfsemi spítalans. 

„Við vitum að fólk er að segja upp fyrst og fremst vegna starfsaðstæðna og álags. Við deilum þeim áhyggjum með starfsfólkinu og erum alla daga að leita lausna til að liðka fyrir um þetta flæði, sem skapast meðal annars af því að það er yfir hundrað prósent rúmanýting á öllum legudeildum og það eru sjúklingar hjá okkur sem hafa lokið meðferð en komast ekki yfir á næsta þjónustustig,“ segir Sigríður. 

Misjafnt er hvenær uppsagnirnar taka gildi en engin þeirra fyrr en eftir áramót. 

„Við vonum náttúrulega bara í lengstu lög að við getum náð að skapa þannig aðstæður að fólk íhugi að endurskoða uppsagnir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert