Fráleitt að draga úr rakningu og sóttkví

Víðir Reynisson bendir á að fráleitt væri að draga úr …
Víðir Reynisson bendir á að fráleitt væri að draga úr rakningu eða sóttkví. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hug­mynd­ir um að draga úr rakn­ingu í tengsl­um við Covid-smit eða milda sótt­kví á ein­hvern hátt eru frá­leit­ar að mati Víðis Reyn­is­son­ar yf­ir­lög­regluþjóns. Hann seg­ir þetta bestu vopn­in í að hefta út­breiðslu veirunn­ar, sem er þó á fleygi­ferð um sam­fé­lagið.

„Staðan þyng­ist með hverj­um deg­in­um, ég held að það sé ekki hægt að segja neitt annað,“ seg­ir Víðir í sam­tali við mbl.is en í gær greind­ust 179 með veiruna inn­an­lands. Þá eru 25 nú á sjúkra­húsi með veiruna en voru 20 í gær.

„Ný­gengi held­ur áfram að hækka, sjúk­ling­um á spít­ala fjölg­ar og álagið á kerfið okk­ar held­ur áfram að aukast. Við sjá­um að það eru fleiri skól­ar að loka og það hef­ur áhrif á at­vinnu­lífið. Það er ým­is­legt í gangi þó spít­al­inn fái mesta at­hygl­ina,“ seg­ir Víðir en skóla­hald ligg­ur niðri í Kárs­nesskóla í Kópa­vogi og Dal­vík­ur­skóla.

99 greind­ust utan sótt­kví­ar í gær og und­an­farna daga og vik­ur hafa marg­ir greinst utan sótt­kví­ar. Víðir seg­ir að þrátt fyr­ir það gangi ágæt­lega að rekja smit.

„Í gær voru 45% í sótt­kví og það er fólk sem við höf­um náð til. Hitt er þetta sam­fé­lags­lega smit sem er úti um allt. Fólk finn­ur ein­hver ein­kenni, fer í próf og er ekki með nein aug­ljós tengsl við aðra hópa. Þetta er að dreifa sér tölu­vert hratt,“ seg­ir Víðir.

Bestu vopn­in í bar­átt­unni

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ferðamála- iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, sagðist fyr­ir viku vilja skoða það hvort hægt væri að létta á álagi í heil­brigðis­kerf­inu með því að gera breyt­ing­ar á smitrakn­ingu og sótt­kví og líta til annarra landa í þeim efn­um.

Víðir seg­ir að það væri al­veg frá­leitt að draga úr rakn­ingu og milda sótt­kví­ar­regl­ur og segj­ast þannig ætla að ein­blína frek­ar á það sem þarf að gera á spít­al­an­um.

„Þetta eru bestu vopn­in okk­ar í að hefta út­breiðsluna eitt­hvað. Hvað held­ur fólk að ger­ist ef við hætt­um að rekja smit? Fólk hætt­ir ekki að smit­ast eða veikj­ast. Þetta er frá­leit nálg­un og það er ekk­ert sem við erum að gera í rakn­ingu eða öðru slíku sem er að minnka getu spít­al­ans til að tak­ast á við mál,“ seg­ir Víðir og held­ur áfram:

„Við erum ekki að taka neina krafta frá spít­al­an­um í því sem við erum að gera. Því fleiri sem við náum í sótt­kví, því betra. Þeir sem veikj­ast lítið fá litla þjón­ustu og það er verið að ein­blína á þá sem veikj­ast.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert