Fráleitt að draga úr rakningu og sóttkví

Víðir Reynisson bendir á að fráleitt væri að draga úr …
Víðir Reynisson bendir á að fráleitt væri að draga úr rakningu eða sóttkví. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hugmyndir um að draga úr rakningu í tengslum við Covid-smit eða milda sóttkví á einhvern hátt eru fráleitar að mati Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns. Hann segir þetta bestu vopnin í að hefta útbreiðslu veirunnar, sem er þó á fleygiferð um samfélagið.

„Staðan þyngist með hverjum deginum, ég held að það sé ekki hægt að segja neitt annað,“ segir Víðir í samtali við mbl.is en í gær greindust 179 með veiruna innanlands. Þá eru 25 nú á sjúkrahúsi með veiruna en voru 20 í gær.

„Nýgengi heldur áfram að hækka, sjúklingum á spítala fjölgar og álagið á kerfið okkar heldur áfram að aukast. Við sjáum að það eru fleiri skólar að loka og það hefur áhrif á atvinnulífið. Það er ýmislegt í gangi þó spítalinn fái mesta athyglina,“ segir Víðir en skólahald liggur niðri í Kársnesskóla í Kópavogi og Dalvíkurskóla.

99 greindust utan sóttkvíar í gær og undanfarna daga og vikur hafa margir greinst utan sóttkvíar. Víðir segir að þrátt fyrir það gangi ágætlega að rekja smit.

„Í gær voru 45% í sóttkví og það er fólk sem við höfum náð til. Hitt er þetta samfélagslega smit sem er úti um allt. Fólk finnur einhver einkenni, fer í próf og er ekki með nein augljós tengsl við aðra hópa. Þetta er að dreifa sér töluvert hratt,“ segir Víðir.

Bestu vopnin í baráttunni

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ferðamála- iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, sagðist fyrir viku vilja skoða það hvort hægt væri að létta á álagi í heil­brigðis­kerf­inu með því að gera breyt­ing­ar á smitrakn­ingu og sótt­kví og líta til annarra landa í þeim efn­um.

Víðir segir að það væri alveg fráleitt að draga úr rakningu og milda sóttkvíarreglur og segjast þannig ætla að einblína frekar á það sem þarf að gera á spítalanum.

„Þetta eru bestu vopnin okkar í að hefta útbreiðsluna eitthvað. Hvað heldur fólk að gerist ef við hættum að rekja smit? Fólk hættir ekki að smitast eða veikjast. Þetta er fráleit nálgun og það er ekkert sem við erum að gera í rakningu eða öðru slíku sem er að minnka getu spítalans til að takast á við mál,“ segir Víðir og heldur áfram:

„Við erum ekki að taka neina krafta frá spítalanum í því sem við erum að gera. Því fleiri sem við náum í sóttkví, því betra. Þeir sem veikjast lítið fá litla þjónustu og það er verið að einblína á þá sem veikjast.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert