Heimaöldrunarþjónusta útvíkkuð

SELMA-teymið er hreyfanlegt öldrunarteymi sem samanstendur af læknum og hjúkrunarfræðingum.
SELMA-teymið er hreyfanlegt öldrunarteymi sem samanstendur af læknum og hjúkrunarfræðingum. mbl.is/Eggert

Þjónustutími öldrunarteymisins SELMU verður útvíkkaður og heimahjúkrun í Reykjavík styrkt samkvæmt nýjum samningi Sjúkratrygginga og Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

SELMA er sérhæft, hreyfanlegt öldrunarteymi sem sett var á fót síðasta vetur til að styrkja þjónustu heimahjúkrunar þegar upp koma skyndileg veikindi eða heilsufar versnar. Teymið samanstendur af læknum og hjúkrunarfræðingum.

Þjónustunni er ætlað að koma til móts við þörf á heimahjúkrun og innlögnum á sjúkrahús og létt þar með undir heilbrigðisþjónustu við hóp aldraðra. í tilkynningunni kemur fram að notast verði við velferðatækni í auknum mæli til að styrkja innviði þjónustunnar.

Lengur á daginn og um helgar

Þjónusta SELMU-teymisins verður aukin og verða hjúkrunarfræðingar og læknar teymisins nú á vakt til klukkan 20 alla virka daga, áður voru þeir til klukkan 17. Einnig mun teymið framvegis starfa um helgar og veita þjónustu í samvinnu við heimahjúkrun Reykjavíkur frá klukkan 10 til 16 á laugardögum og sunnudögum.

Haft er eftir Maríu Heimisdóttur, forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, í tilkynningnni að úrræðið sé til þess fallið að draga úr þörf skjólstæðinga heimahjúkrunar á bráðamóttöku þar sem skapast hefur óhóflegt álag að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert