Íslenska ríkið sýknað af kröfu vegna Geysis

Ekki var kveðið á um vexti í samningnum.
Ekki var kveðið á um vexti í samningnum. mbl.is/RAX

Íslenska ríkið var í dag sýknað af rúmlega 90 milljóna króna verðbótakröfu hóps fyrrverandi landeigenda á Geysissvæðinu, auk vaxta. Ríkið hafði þegar greitt landeigendunum fyrrverandi rúman milljarð króna fyrir landið í júní 2019.

Kröfu um vexti hafði þegar verið hafnað fyrir héraðsdómi, en áfrýjendur og íslenska ríkið áttu land í óskiptri sameign á Geysissvæðinu. Þann 7. október 2016 sömdu áfrýjendur og ríkið um kaup ríkisins á eignarhlut hinna og stóð hann ríkinu til ráðstöfunar frá þeim degi. Í kaupsamningnum var ákveðið að leggja það í mat matsmanna að meta sanngjarnt kaupverð landspildunnar.

Samkvæmt yfirmatsgerð 17. apríl 2019 komst meirihluti yfirmatsmanna að þeirri niðurstöðu að sanngjarnt kaupverð fyrir landið væri 1.009.278.000 krónur miðað við 7. október 2016.

Frá Geysissvæðinu í Haukadal.
Frá Geysissvæðinu í Haukadal. mbl.is/Árni Sæberg

Skyldi verðbætt

Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar sagði að ef kaupverðið væri framreiknað miðað við breytingu á byggingarvísitölu frá kaupsamningsdegi til dagsetningar yfirmats næmi kaupverðið alls 1.100.113.020 krónum. Þá kom þar fram að kaupverðið skyldi bera almenna vexti samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu frá kaupsamningsdegi til greiðsludags.

Áfrýjendur byggðu málatilbúnað sinn á því að í niðurstöðu meirihluta yfirmatsmanna fælist að kaupverð landspildunnar skyldi verðbætt og vaxtareiknað með framangreindum hætti. Væri ríkið bundið við þá niðurstöðu samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins.

Óvíst hvort samkomulag hefði náðst

Í dómi Landsréttar kom fram að í kaupsamningi aðila hefði ekki verið kveðið á um greiðslu vaxta eða verðbóta af kaupverði en fyrirsjáanlegt hefði verið við frágang kaupsamningsins að umtalsverður tími kynni að líða þar til endanleg matsgerð lægi fyrir.

Var talið að ef áfrýjendur teldu sig eiga rétt til greiðslu verðbóta eða vaxta hefði þeim borið að eiga frumkvæði að því að kveðið yrði á um það í samningnum. Hið sama var talið gilda um viðmiðunartíma verðmatsins ef þeir teldu að hann ætti að vera annar en afhendingartími landspildunnar.

Eins og atvikum málsins væri háttað hefði verið alls óvíst hvort samkomulag um slíkt hefði náðst ef á það hefði reynt. Var sýkna héraðsdóms því staðfest.

Krafan var gerð í nafni Suðurgafls ehf., Sigríðar Vilhjálmsdóttur, Þóris Sigurðssonar ehf., Hrannar Greipsdóttur, Sigurðar Hauks Greipssonar, Minningarsjóðs Ársæls Jónssonar, Svövu Loftsdóttur, Mörtu Loftsdóttur, Péturs Guðfinnssonar, Margrétar Sigríðar Pálsdóttur og Ingu Ingibjargar Guðmundsdóttur.

(Fréttin hefur verið uppfærð, bæði fyrirsögn og útlistun á vöxtum og verðbótum.)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert