„Krakkar og kennarar fengu að vaða í hár okkar“

Kristín, Valgerður og Anna hjá Antirasistunum.
Kristín, Valgerður og Anna hjá Antirasistunum.

UNICEF á Íslandi vann myndband með ungum aðgerðarsinnum á Íslandi, börnum og ungmennum sem hafa tekið þá afstöðu að vera hluti af breytingum til batnaðar í samfélaginu í tilefni alþjóðadags barna sem er á morgun. 

UNICEF biðlar til almennings, fjölmiðla og stjórnvalda að „gefa börnum orðið.“

„Til þess að við getum í sameiningu unnið að betri heimi þurfa börn að vera virkir þátttakendur í þeirri vegferð. Dagurinn er einnig afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, útbreiddasta mannréttindasáttmála heims, þar sem segir meðal annars:  „Börn eiga rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim,“ segir í tilkynningu frá UNICEF. 

„UNICEF á Íslandi vann myndbandið með Ungmennaráði UNICEF auk fulltrúa frá Antirasistunum, Menntakerfinu okkar og Eiði Welding, varaformanni CP félagsins. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa upplifað fordóma, fordóma vegna húðlitar síns eða þjóðernis, vegna fötlunar eða að ekki sé tekið mark á þeim eða skoðunum þeirra vegna þess að þau eru börn.“

„Krakkar og kennarar fengu að vaða í hár okkar án leyfis og við vorum kallaðar skítugar til þess að niðurlægja okkur,“ segja segir Valgerður Kehinde frá Antirasistunum í myndskeiðinu. 

Menntakerfið okkar, hópur fjögurra ungmenna sem vilja uppfæra og betrumbæta íslenska menntakerfið vilja sjá til þess að starfshættir grunnskóla mótist af umburðarlyndi, kærleika, víðsýni og jafnrétti. Þau vilja tortíma fordómum, binda endi á einelti og nútímavæða menntakerfið því fordómar eru fáfræði.

Eiður Welding, varaformaður CP félagsins, sendir þau skilaboð að nú sé tíminn til að sperra eyrun og hlusta, fyrir bætt samfélag. „Hundruð, ef ekki þúsundir fatlaðra barna eru með sterka rödd og hafa mikið að segja en samfélagið hlustar ekki,“ segir Eiður.

„Við upplifum fordóma á hverjum degi fyrir það eitt að vera börn,“ segja fulltrúar í Ungmennaráði UNICEF á Íslandi. „Það er ekki hlustað þegar við segjum frá ofbeldi, þegar við upplifum vanlíðan, þegar við fjöllum um loftlagsmál, gagnrýnum menntakerfið eða þurfum hjálp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert