Loftslagsfundur Festu og Reykjavíkurborgar fer fram í Hörpu í dag og verður hægt að fylgjast með honum í beinu streymi á mbl.is.
Fundurinn í ár er haldinn í samstarfi við Loftslagsráð og þar verður rædd staða mála, kolefnismarkaðurinn á Íslandi og hvað þarf að gera til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána.
Hér fyrir neðan má fylgjast með streyminu:
Fundarstjóri er Freyr Eyjólfsson og mun Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissina, flytja opnunarávarp. Þá munu Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Tómas N. Möller formaður Festu einnig ávarpa fundinn.
Fundurinn stendur yfir frá klukkan 9 til 12.
Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftlagsþjónustu og aðlögunar, mun flytja erindið „Aðlögun að loftslagsbreytingum á Íslandi“ og Halldór Þorgeirsson, formaður Loftlagsráð, flytur erindið „Hver er framtíðarsýnin?“
Þá munu Guðmundur Sigbergsson, formaður tækninefndar um ábyrga kolefnisjöfnun, Guðný Nielsen, meðstofnandi SoGreen, Ívar Örn Þrastarson, deildarstjóri framkvæmdadeildar hjá Festi og Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum og fulltrúi Festu í Loftslagsráði, taka þátt í pallborðsumræðum um mikilvægi þess að reka markað fyrir kolefnisjöfnun.
Loks munu Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráð, Auður Alfa Ólafsdóttir, sérfræðingur í umhverfis- og neytendamálum hjá ASÍ, Tómas Möller, yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs verslunarmanna og formaður Festu, Rafn Helgason, ritari Ungra umhverfissinna og Hulda Þórisdóttir, dósent við Háskóla Íslands, ræða loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26), lykiláherslur og næstu skref.
Að loknum fundi munu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Líf Magneudóttir, formaður dómnefndar, afhenda Loftslagsviðurkenningar Reykjavíkurborgar og Festu.