Landsréttur vísaði í dag frá héraðsdómi máli Atla Rafns Sigurðssonar leikara gegn Persónuvernd. Var málið höfðað vegna úrskurðar Persónuverndar þess efnis að Borgarleikhúsinu hafi ekki verið skylt að veita honum upplýsingar í tengslum við ásakanir á hendum honum sem leiddu til uppsagnar.
Áður hafði Atli Rafn haft betur gegn Persónuvernd í héraðsdómi og var Persónuvernd þar jafnframt gert að greiða honum 900 þúsund í málskostnað. Héraðsdómur hafði komist að því að verulegir ágallar væru á úrskurði Persónuverndar sem hafi m.a. verið byggður á nýjum lögum sem ekki höfðu tekið gildi.
Landsréttur kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu, með vísan í dómafordæmi frá Hæstarétti, að Borgarleikhúsið hafi án nokkurs vafa átt aðild að málinu og að þegar krafist væri ógildingar á úrlausn stjórnvalds yrðu þeir sem væru aðilar að stjórnsýslumálinu að eiga aðild að málinu fyrir dómi, enda ættu þeir beinna, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Segir Landsréttur að það eigi við um Borgarleikhúsið og er málinu því vísað frá héraðsdómi án kröfu.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í janúar árið 2019 að Leikfélag Reykjavíkur og þáverandi leikhússtjóri Borgarleikhússins hefðu ekki farið að lögum þegar Atla Rafni var sagt upp störfum. Landsréttur sýknaði hins vegar leikfélagið. Atli fékk fyrr á þessu ári heimild til að áfrýja málinu til Hæstaréttar, en þó ekki sambærilegu máli gegn Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra.