Mörg börn eru nú á farsóttarhótelum

Hið nýja farsóttarhótel Reykjavík Lights var nánast fullt í gær.
Hið nýja farsóttarhótel Reykjavík Lights var nánast fullt í gær. mbl.is/Unnur Karen

„Við erum byrjuð að útskrifa þessa hópa sem komu í stórum stíl þegar þessi bylgja byrjaði,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhótela Rauða krossins.

Staðan á farsóttarhótelunum var þokkaleg í gær að sögn Gylfa. „Við erum með 164 hjá okkur núna. Þar af eru 149 sem eru í einangrun og 14 í sóttkví en það eru foreldrar sem hafa fylgt börnum sínum sem eru í einangrun.“

Sem kunnugt er hefur mikið af börnum og ungmennum greinst með kórónuveiruna í þessari bylgju. Segir Gylfi að þess sjáist merki. „Það er töluverður hluti af fólkinu sem er hjá okkur börn. Þetta eru oftar en ekki börn sem þurfa meiri eftirfylgni frá barnaspítalanum. Svo eru hér líka börn sem koma til okkar frekar en að heilu fjölskyldurnar þurfi að fara í sóttkví. Þá fórnar kannski annað foreldrið sér og kemur með barninu en hitt sér um afganginn af fjölskyldunni.“

Vel sett næstu vikuna

Vika er nú síðan nýtt farsóttarhótel var opnað á Reykjavík Lights-hótelinu við Suðurlandsbraut. Þar eru 105 herbergi sem nýst hafa vel að sögn Gylfa. „Það hótel er nánast fullt hjá okkur en við höfum um leið náð að losa aðeins á hinum tveimur, Lind og Rauðará. Við erum þokkalega vel sett núna næstu vikuna nema einhverjar hörmungar dynji yfir,“ segir Gylfi. Hann segir að á Akureyri hafi sömuleiðis bæst við pláss til að taka á móti fleiri gestum.

Gylfi segir að þótt staðan á farsóttarhótelunum sé í jafnvægi séu miklar annir þar og starfsfólk Rauða krossins hafi í mörg horn að líta.

„Það eru á bilinu 20-30 manns sem koma til okkar daglega og það er nóg að gera,“ segir forstöðumaðurinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert