Ógnaði ítrekað lífi fyrrverandi sambýliskonu

Maðurinn var sviptur ökuréttindum í sex mánuði.
Maðurinn var sviptur ökuréttindum í sex mánuði. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur staðfesti í dag dóm yfir karlmanni sem hafði verið dæmdur í átta mánaða fangelsi og til að greiða samtals 815.928 krónur í miska- og skaðabætur. Maðurinn var sakfelldur í desember á síðasta ári fyrir húsbrot, líkamsárás, ofbeldi í nánu sambandi og umferðarlagabrot.

Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu til Landsréttar í janúar og krafðist ákæruvaldið þyngri refsingar. Ákærði fór hins vegar fram á sýknu af 2. ákærulið, er varðaði ofbeldið í nánu sambandi, og að refsingin yrði milduð verulega og bundin skilorði að öllu leyti.

Veittist að brotaþola og kýldi tvisvar í andlitið

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimili annars manns þar sem hann veittist að honum og kýldi tvisvar í andlitið og hlaut brotaþoli áverka af. Þá var ákærði sakfelldur fyrir að hafa ítrekað ógnað lífi, heilsu og velferð fyrrverandi sambýliskonu sinnar.

Að lokum var hann sakfelldur fyrir að hafa keyrt bifreið þrátt fyrir að vera ófær um að stjórna henni, örugglega vegna ávana- og fíkniefna, að því er fram kemur í dómnum.

Maðurinn var sviptur ökuréttindum í sex mánuði og dæmdur í átta mánaða fangelsi en fullnustu fimm mánaða af refsingunni var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Ákvörðun dómsins var tekin með hliðsjón af því að ákærði hafði aldrei áður verið dæmdur fyrir refsiverða háttsemi.

Þá var hann dæmdur til að greiða manninum er hann kýldi 300.000 krónur í miskabætur og fyrrverandi sambýliskonu sinni 515.928 krónur í miska- og skaðabætur. Mun ákærði einnig greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, sem nemur 543.096.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert