Reykjavík verði kolefnislaus snjallborg

Reykjavíkurborg stefnir að því að verða ein af 100 kolefnishlutlausum …
Reykjavíkurborg stefnir að því að verða ein af 100 kolefnishlutlausum snjallborgum Evrópu árið 2030. mbl.is/Sigurður Bogi

Borgarráð hefur heimilað Reykjavíkurborg að sækja formlega um að vera ein af 100 kolefnishlutlausum snjallborgum Evrópu árið 2030. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Nauðsynlegt sé að mæta loftslagsvánni

Eftir að Græna planið var samþykkt í borgarstjórn í desember 2020 hafi verið komið á fót fjórum starfshópum sem myndaðir voru með fulltrúum frá ólíkum sviðum Reykjavíkurborgar en einnig fulltrúum B- hlutafyrirtækja sem borgin á hlut í. Starfshóparnir fjölluðu um áskoranir næsta áratugar, um orkuskipti, hringrásarhagkerfi, græn innkaup og fjármál og Evrópusamstarf á þessum sviðum, að því er greint frá í tilkynningunni.

Þá hafi hópur borgarinnar um kolefnishlutlausar og snjallar borgir 2030 verið í samskiptum við fulltrúa Eurocities og Evrópusambandsins og lýst yfir áhuga Reykjavíkurborgar á þátttöku í verkefninu um að verða ein af 100 kolefnishlutlausum snjallborgum Evrópu árið 2030.

Nauðsynlegt er að mæta loftslagsvánni með aðgerðum á vettvangi borga og með því að virkja almenning með lýðræðislegum hætti, sem neytendur, framleiðendur, notendur og eigendur,“ segir í tilkynningunni.

Loftslagsborgasamningur verði formgerður

Því sé lagt upp með að samstarf innan borga sé formgert með sérstökum Loftslagsborgasamningi, sem lagaður skuli að hverri borg fyrir sig en hvíli á grunni Græna sáttmála Evrópusambandsins (European Green Deal) sem miði að því að ná kolefnishlutleysi í Evrópu fyrir árið 2050.

Áhersla sé lögð á fjárframlög til rannsókna og nýsköpunar og ýmissa samfélagslegra forgangsverkefna. Lagt verði upp úr því að haft sé lýðræðislegt samráð og nýjar aðferðir verði notaðar í að stýra verkefnum innan borga. Borgir geri kerfisbreytingar til að fjárfesta í aðgerðum gegn loftslagsvánni. Til að árangur náist þurfi að beita heildstæðri nálgun til að ýta undir nýsköpun og innleiðingu, ítarlegu og virku samráði sem yrði byggt inn í skipulag og auka þurfi þétt samstarf milli ólíkra hagaðila.

Til að Reykjavíkurborg megi verða ein af kolefnishlutlausum snjallborgum Evrópu árið 2030  þurfi að stuðla að nýsköpun í stjórnsýslu og ná samstarfi við einkageirann, háskólasamfélagið og frjáls félagasamtök.

Sett verði saman umsóknateymi Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum til að vinna að lokaútgáfu umsóknarinnar.

Frekari upplýsingar um kolefnislausar snjallborgir má nálgast á vef Evrópusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert