Það sem af er þessu ári hafa álíka margir látist og á sama tíma undanfarin fjögur ár. Minnst var það árið 2019 þegar samtals 1.843 höfðu látist á fyrstu 43 vikum ársins, en í ár höfðu 1.884 látist, sem er réttu meira en árin 2020 og 2018.
Þetta er meðal þess sem má lesa úr tölum Hagstofunnar, en stofnunin hefur undanfarið gefið út tilraunatölfræði yfir látna eftir vikum. Var byrjað á þessu vegna eftirspurnar eftir nákvæmari tölum þannig að hægt væri að kanna áhrif kórónuveirunnar með skjótari hætti og gera fólki kleift að bera saman dauðsföll á milli landa.
Fyrstu 43 vikur ársins 2021 dóu að meðaltali 43,8 í hverri viku eða aðeins fleiri en fyrstu 43 vikur áranna 2017-2020 þegar 43,3 dóu að meðaltali. Tíðasti aldur látinna fyrstu 43 vikur 2021 var 78 ár en 87 ár fyrir sömu vikur áranna 2017-2020.
Á myndinni hér að neðan má sjá þróun á vikulegri dánartíðni á síðustu árum, en notast er við 10 vikna hlaupandi meðaltal í stað þess að sýna hráar talningar gagnanna. Er þetta gert þar sem vikuleg dánartíðni er yfirleitt mjög lág á Íslandi og töluvert flöktandi milli vikna.