Undirskriftasöfnun Amnesty hafin

Íslandsdeild Amnesty International hefur ýtt úr vör stærstu árlegu mannréttindaherferð í heimi. Herferðin heitir „Þitt nafn bjargar lífi“ og er markmið herferðarinnar að safna undirskriftum í þágu þolenda mannréttindabrota og skora á stjórnvöld víða um heim að láta tafarlaust af brotunum.

Fram kemur í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty að í fyrra hafi 4,5 milljónir manna sent inn bréf, kort, smáskilaboð eða undirskriftir í þágu tíu þolenda mannréttindabrota. Þar af söfnuðust um 70 þúsund undirskriftir hér á landi.

Áhersla á tíu mismunandi mál

Líkt og í fyrra er áhersla lögð á mál tíu þolenda og þar á meðal er mál Chiam Ali. Málið er rakið í tilkynningunni:

„Hún fæddist í Los Angeles en ólst upp í Erítreu. Hún var aðeins 15 ára þegar hún hvarf sporlaust. Stjórnvöld í Erítreu eru talin hafa numið hana á brott í hefndaraðgerð gegn föður hennar, sem grunaður var um aðild að valdaránstilraun. Síðan eru liðin 9 ár. Erítrea er alræmd fyrir að halda fólki föngnu í gámum neðanjarðar þar sem það þarf að þola miklar öfgar í hita og kulda. Óttast er að Chiam sé haldið fanginni í slíku neðanjarðarfangelsi. Í gámi sem grafinn er í jörð“.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Gulur gámur í Skólavörðuholti

Þá hefur Íslandsdeild Amnesty komið upp gulum gámi á Skólavörðuholti þar sem lesa má um mál hennar, ganga inn í gáminn og fá tilfinningu fyrir aðstæðum hennar auk þess sem hægt verður að skrifa undir.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá er einnig bent á að verkefnið sé sönnun þess að í krafti fjöldans sé unnt að umturna lífi fólks sem sætir grófum mannréttindabrotum. Samtakamátturinn hafi stuðlað að frelsun samviskufanga, náðun dauðadæmdra fanga, mannúðlegri löggjöf og stöðvun pyndinga.

Hægt er að kynna sér málefnin og skrifa undir á vefsíðu Amnesty.

Frá vinstri: Rúna Friðriksdóttir, verkefnastjóri hjá Amnesty, Bryndís Bjarnadóttir herferðarstjóri …
Frá vinstri: Rúna Friðriksdóttir, verkefnastjóri hjá Amnesty, Bryndís Bjarnadóttir herferðarstjóri og Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert