Veðurstofa Íslands spáir norðan- og norðvestanátt í dag, yfirleitt 5-13 m/s en 15-20 á Austfjörðum. Víða verður léttskýjað, en stöku él fyrir norðan. Þá verður 0 til 6 stiga frost í dag.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings.
„Í nótt snýst vindurinn smám saman í suðvestanátt. Á morgun verður vætusamt með rigningu eða slyddu og hlýnandi veðri, en þurrt að kalla fyrir austan. Hiti 4 til 8 stig síðdegis,“ segir þar og sömuleiðis:
„Hvöss suðvestanátt á mánudag með rigningu víða en úrkomuminna austan til og áfram milt veður.“