Ákallið skilaði einhverjum árangri

Það bráðvantar ljósmæður á bakvarðalistann.
Það bráðvantar ljósmæður á bakvarðalistann. Mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ákall Landspítala vegna skorts á ljósmæðrum hefur borið einhvern árangur en nú þegar hefur ein ljósmóðir sem starfar hjá einkafyrirtæki boðist til að koma og veita spítalanum hjálparhönd. Þetta staðfestir Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítalanum.

„Það var komin að minnsta kosti ein til að vinna strax en við þiggjum meiri hjálp ef einhver er til,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is

Útbreiðsla smita í samfélaginu hefur haft margvísleg áhrif á Landspítala. Fyrir utan aukið álag þá hefur einnig fækkað í starfsmannahópnum vegna sóttkvíar og einangrunar en hátt í 300 starfsmenn spítalans eru nú utan vinnu vegna þess.

Í tilkynningu sem birtist í gær á vef Landspítala kom fram að ljósmæður bráðvantaði á bakvarðalista vegna ástandsins.

Þétta baklandið og forgangsraða verkefnum

Til að bregðast við stöðunni hafa þær ljósmæður sem eru starfandi á Landspítalanum tekið fleiri aukavaktir, auk þess sem starfsfólk þvert yfir spítalann hefur komið og létt undir álaginu á ljósmæðrum.

„Við fengum til að mynda ritaraaðstoð og fleira til þess að taka verk sem að ljósmæður myndu annars gera að kvöld- og næturlagi. Auk þess sem við höfum styrkt læknamönnun á móti líka.“

Þá hefur verkefnum einnig verið forgangsraðað þannig að ljósmæður sinni fyrst og fremst fæðingum svo þjónusta við þungaðar konur skerðist ekki.

„Ljósmæður eru í forgangi að sinna fæðingum. En svo vinnum við bara saman með spítalanum að styrkja og þétta baklandið í kringum þessa starfsemi þar sem álagið er mest.“

Gott hljóð í fólki

Er nú beðið eftir því hvort að fleiri ljósmæður muni koma til hjálpar fyrir tilstilli bakvarðasveitarinnar.

 „Þetta var rætt í farsóttarnefnd og viðbragðsstjórn í hádeginu. Það var bara nokkuð gott hljóðið í fólki. Það eru allir að hjálpast að við að finna lausn á þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert