Dúxaði í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ

Solveig Þóra Þorsteinsdóttir, dúx Fjölbrautaskólans í Garðabæ.
Solveig Þóra Þorsteinsdóttir, dúx Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Ljósmynd/Aðsend

Brautskráning nemenda frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ fór fram í gær. Solveig Þóra Þorsteinsdóttir útskrifaðist með hæstu meðaleinkunnina og hlaut hún einnig viðurkenningar fyrir góðan námsárangur í einstaka greinum.

38 nemendur útskrifuðust frá FG í gær. 12 af hönnunar og markaðsbraut, sex af viðskiptabrautum, fimm af listnámsbrautum, fjórir af bæði félagsvísindabraut og íþróttabraut, þrír af bæði alþjóðabrautum og náttúrufræðibraut og einn brautskráðist með lokapróf frá FG.

Salný Kaja Sigurgeirsdóttir flutti ávarp nýstúdents en athöfninni var streymt á Yotube vegna sóttvarnaraðgerða og því færri viðstaddir en við eðlilegar aðstæður.

Bjóst ekki við því að dúxa

Í samtali við mbl.is segist Solveig alls ekki hafa búist við því að dúxa og að hún hafi ekki sérstaklega stefnt að því en að hún hafi almennt reynt að standa sig vel í náminu. Þá stefnir Solveig á háskólanám í salfræði næsta haust.

Ertu með einver sérstök ráð fyrir aðra nemendur? 

„Í rauninni bara að gera sitt besta og það kemur bara það sem kemur,“ segir Solveig og bætir við að hún ráðleggi öðrum nemendum að skipuleggja sig vel svo verkefnin bíði ekki fram á síðustu stundu.

Solveig er stúdent af íþróttabraut og segir hún það hafa verið mjög þægilegt að sameina bæði námið og íþróttirnar en Solveig var í frjálsum íþróttum.

Hvernig gekk að sinna félagslífinu samhliða námi?

„Það náttúrulega var allt rosalega öðruvísi með Covid,“ segir Solveig og bætir við að félagslífið eigi sér náttúrulega líka stað í skólanum en að lítið hafi verið hægt að hittast utan hans.

Aðspurð segir Solveig það hafa fyrst um sinn verið erfitt þegar kórónuveiran skall á. „En mér finnst allavega hjá FG að allt hafi verið rosaleg vel uppsett. Mér fannst það ekki hafa nein neikvæð áhrif á námið,“ segir Solveig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert