„Eins og ömurleg herskylda“

Mikið álag hefur verið á bráðamóttöku Landspítalans í langan tíma. …
Mikið álag hefur verið á bráðamóttöku Landspítalans í langan tíma. Starfsfólk hefur nú tekið að segja upp störfum sínum. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Uppsögnum hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku Landspítalans rignir inn um þessar mundir samkvæmt Berglindi Gestsdóttur, hjúkrunarfræðingi á bráðarmóttökunni. 

Sjálf hefur Berglind sagt starfi sínu lausu nýlega vegna álags og ósamræmi launa og ábyrgðar. „Þetta er okkur beittasta vopn og við ætlum að nota það,“ segir Berglind í samtali við mbl.is. 

Berglind Gestsdóttir er á meðal hjúkrunarfræðinga sem sagt hefur upp …
Berglind Gestsdóttir er á meðal hjúkrunarfræðinga sem sagt hefur upp á bráðamóttökunni. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir umræðuna um innflutning á erlendu vinnuafli til að starfa á bráðamóttökunni vera fáránlega og vísar þar með til orða  Guðlaugar Rakelar Guðjóns­dótt­ur, sett­s for­stjóra Land­spít­al­an. 

Hægt að borga betri laun ef það er hægt að flytja inn vinnuafl

Að henn­ar sögn hef­ur spít­al­inn til skoðunar að sækja starfs­krafta að utan í aukn­um mæli en hún seg­ir að nú þegar hafi 150 er­lend­ir hjúkr­un­ar­fræðing­ar verið fengn­ir til starfa sem hafi gefið góða reynslu þó að þeim fylgi nokk­ur auka­kostnaður.

„Ef að það er hægt, þá er hægt að borga okkur betri laun og þá erum við mættar,“ segir Berglind. 

Berglind setti í gær fram hugleiðingar sínar varðandi stöðuna á bráðamóttökunni og líkti ástandinu við ömurlega herskyldu og tók þannig undir orð Sigríðar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítalanum. 

„Við erum eins og hermenn, sem liggur við vökum sólarhringunum saman því að við náum varla hvíld á milli vakta. Um leið og við fáum frí er byrjað að biðla til okkar um að taka aukavaktir. Við höfum orðið bara ekki getu í það,“ segir Berglind.

Fær martraðir

Hún segir marga hjúkrunarfræðinga líka hætta að svara kalli bakvarðasveita, enda sé það illa borguð og vanþakklát vinna.  „Þetta snýst um að borga okkur betri laun. Það eru hundruð hjúkrunarfræðinga að vinna við eitthvað allt annað úti í samfélaginu. Ég lét fylgja færslunni [á Facebook] að gamni að ég væri að leita að vinnu, og ég er búin að fá fullt af viðbrögðum. Hjúkrunarfræðingar erum eftirsóttir starfskraftar í liggur við hvað sem er þannig að spítalinn þarf bara að læra að meta okkur og borga okkur eftir álaginu og ábyrgðinni sem að starfinu fylgir,“ segir Berglind.

Hún segir uppsagnir síðustu daga ekki vera samantekið ráð heldur sé mælirinn orðinn fullur hjá svo mörgum. 

Berglind fær martraðir á næturnar tengdar vinnunni. „Síðast þegar ég kom heim eftir vinnu, löngu seinna en ég átti að vera búin, sofnaði ég og dreymdi hrylling alla nóttina. Svo vaknaði ég við það að það er verið að biðja mig um að taka aukavakt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert