Sumarleysing á þremur stærstu jöklum landsins, Vatnajökli, Langjökli og Hofsjökli, var vel yfir meðaltali á jökulárinu 2020-2021 þrátt fyrir kalt vor. Þannig var hún 30% umfram meðallag fyrir Vatnajökul, um 15% fyrir Langjökul og 13% fyrir Hofsjökul. Heildarafkoma þessara þriggja stærstu jökla landsins á umræddu jökulári var neikvæð eins og öll ár frá 1995 að árunum 2015 og 2018 frátöldum.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Afrennsli frá öllum þessum jöklum skilar sér að hluta til miðlana og lóna Landsvirkjunar. Landsvirkjun er í samstarfi við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands um afkomumælingar á Vatnajökli og Langjökli. Veðurstofa Íslands sinnir afkomumælingum á Hofsjökli og var sérstaklega fjallað um þær og afkomu Hofsjökuls í Morgunblaðinu 6. nóvember sl.
Einnig eru gerðar afkomumælingar á öðrum minni jöklum, gjarnan í samstarfi fyrrnefndra stofnana auk Jöklarannsóknafélags Íslands. Það á meðal annars við um Mýrdalsjökul, Torfajökul og Tungnafellsjökul.
Í samantekt Landsvirkjunar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands um afkomumælingarnar á jöklunum kemur fram að vetrarafkoman, það er hve mikið snjóaði á jökulinn yfir veturinn, var 15% undir meðaltali á Vatnajökli miðað við fyrri athugunarár. Vetrarafkoman á Hofsjökli og Langjökli var nálægt meðaltali allra athugana eða +6% á Langjökli og -6% á Hofsjökli.
Vorið var fremur kalt og úrkomulítið, ekki ólíkt veðurfari að vori undanfarin ár. Vorin 2016-2021, að frátöldu vorinu 2019, voru frekar svöl og nokkuð miklir kuldakaflar í maí sem hægðu á leysingu jökla. Nýliðinn maí var sá kaldasti á árunum 1990-2021 og júní var ekki langt frá því, sé tekið mið af hálendi og jöklum landsins.