Ölvunarakstur hægri vinstri og keyrt á vegfarendur

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu setti upp umferðarpóst á Bústaðavegi í nótt þar sem athugað var með ástand ökumanna og -tækja. Átta ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða hvors tveggja. 

Kollegar áhrifa-ökumannanna fundust víðar í nótt og er dagbók lögreglu í raun smekkfull af ökumönnum sem eru grunaðir um að hafa keyrt undir áhrifum, eða of hratt án þess að áhrifum hafi verið á nokkurn hátt um að kenna. Ellefu ökumenn til viðbótar við þessa átta sem er minnst á hér að ofan eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum í nótt. 

Þá var enn meiri usli á götum borgarinnar í gærkvöldi en laust eftir klukkan sex í gærkvöldi var ekið á gangandi konu í Hafnarfirði. Hún hlaut skurð á höfði en missti ekki meðvitund. Konan var flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðadeild.

Á svipuðum tíma var ekið á mann á rafmagnshlaupahjóli í Hlíðahverfi. Hann var með verki í baki eftir á og var fluttur á bráðamóttöku. 

Annar maður á eins fararskjóta í sama hverfi lenti illa í því í gærkvöldi, þó ekki vegna bifreiðar. Hann er talinn hafa rotast klukkan rúmlega tíu í gærkvöldi. Úr höfði hans blæddi og var hann fluttur á bráðamóttöku. 

Þá fengu dauðir hlutir líka að kenna á skeytingarleysi ökumanna í gær en ökumaður sem grunaður er um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og að miða ekki ökuhraða við aðstæður var á ferðinni í Grafarvogi í nótt og keyrði á ljósastaur. Bifreiðin var flutt af vettvangi með Króki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert