Jarðskjálfti að stærð 3,5 varð norðaustur af Reykjanestá klukkan 12:25 í dag en hrina hófst við Reykjanestá upp úr klukkan sex í gærkvöldi.
Ein tilkynning hefur borist Veðurstofu Íslands um að skjálftinn hafi fundist og var það í Njarðvík, Reykjanesbæ. Þó nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið en allir eru þeir um eða undir 2 að stærð.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir skjálftahrinuna enn í gangi. Stærsti eftirskjálftinn eftir þann sem var 3,5 að stærð var 2,5 að stærð.
Síðast varð skjálfti af þessum skala á Reykjanestánni í mars en margir skjálftar, bæði stórir og litlir hafa mælst á Reykjanesi síðastliðna mánuði.