„Það hefur hún ekki gert“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar segir í samtali við mbl.is að ríkisstjórnin sem ætlaði að bjarga heilbrigðiskerfinu hefði þurft að ráðast virkilega í átak til að ná því markmiði. „Við erum búin að tala um það allt kjörtímabilið,“ segir hann.

Þá segir Logi þá peninga sem hafa komið inn í kerfið hafa gert lítið annað en að mæta kjarasamningsbundnum launahækkunum, fólksfjölgun og aukinni ferðamennsku.

„Ég held það hefði þurft að ráðast með miklu kröftugri hætti í það að skilgreina vandann og mæta honum,“ segir Logi og bendir á að það þurfi að sjá til þess að það sé nægur mannskapur sem vinnur störf innan heilbrigðiskerfisins. Þá liggi einnig fyrir að það vanti húsnæði á höfuðborgarsvæðinu en Logi segir það gott að það sé nú í byggingu. 

Þá bendir Logi á að það álag sem fylgir núverandi aðstæðum geti jafnvel endað í uppsögnum. Vandinn sé því kannski enn meiri en hann hefur áður verið.

Heimskulegasta hugmynd sem fjármálaráðherra hafði heyrt

„Þegar að við töluðum um að ráðast þyrfti meðal annars gegn undirmönnum í heilbrigðisþjónustunni þá kallaði fjármálaráðherra það heimskulegustu hugmynd sem hann hafði heyrt,“ segir Logi og bætir við:

„Nú sjá allir hver staðan er sem blasir við og ríkisstjórnin hefði nú átt að átta sig á því í upphafi faraldursins að það hefði þurft að styrkja kerfið til þess að það gæti mætt áföllum af þessum toga og það væri hærra borð fyrir báru þannig að það væri auðveldara að sigla í gegnum þetta svo að almenningur gæti lifað sem eðlilegustu lífi og það þyrfti sem minnstar takmarkanir.“

Aðspurður segir Logi að verkefnið sé ekki auðvelt, um sé að ræða erfitt langtímaverkefni en að ráðast hefði þurfti í það strax og með fullri alvöru.  

„Að minnsta kosti hefði það verið í samræmi við þau loforð sem voru í stjórnarsáttmálanum að hér væri ríkisstjórnin komin til að bjarga heilbrigðiskerfinu. Það hefur hún ekki gert,“ segir Logi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert