Útlit er fyrir að yfirstandandi kórónuveirubylgja verði dropinn sem fyllir bikarinn hjá hjúkrunarfræðingum, að mati formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh). Hún segir að yfirvöld hafi ekki nýtt sín tækifæri til þess að mæta vandamálinu sem lök kjör hjúkrunarfræðinga eru. Þá ætti alvarleg staða nú hvað varðar skort á hjúkrunarfræðingum ekki að koma neinum á óvart.
„Sagan virðist vera að endurtaka sig. Hjúkrunarfræðingar eru farnir að segja upp störfum og láta ekki bjóða sér lengur það mikla vinnuálag og starfsaðstæður sem nú eru í boði. Af hverju? Jú, af því að íslensk yfirvöld ætla greinilega seint að meta störf þessarar stóru kvennastéttar og borga þeim laun í samræmi við álag og ábyrgð í starfi,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Fíh, í pistli sem hún sendi mbl.is.
„Núverandi COVID-bylgja virðist ætla að vera dropinn sem fyllir mælinn ef marka má samtöl Félags Íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) við félagsmenn og hefur umfjöllunin í fjölmiðlum ekki farið framhjá neinum. Í síðustu tveimur samningum hafa yfirvöld haft tækifæri til þess að mæta vandamálinu varðandi kjör hjúkrunarfræðinga en treystu sér ekki í verkefnið. Því enduðu samningarnir 2015 og 2020 í gerðardómi.“
Guðbjörg segir ábyrgð gerðardóms í fyrra mikla og að varnaðarorð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hafi verið hunsuð.
„Þó kemur fram í greinargerð gerðardóms með úrskurðinum að vísbendingar séu til staðar um kynbundinn launamun milli stétta þar sem karlar eru fjölmennari, en þeir fá hærri laun að jafnaði en hjúkrunarfræðingar án þess að störfin séu endilega metin meira virði,“ segir Guðbjörg sem telur að gerðardóm hafi skort sama kjark og yfirvöld til að meta þessa stærstu heilbrigðisstétt að verðleikum og launasetja hana miðað við menntun og ábyrgð starfi.
„Varnarorðum Fíh varðandi skortinn á hjúkrunarfræðingum, lág laun og slæmt starfsumhverfi hefur ekki ennþá verið mætt og lögmálið um framboð og eftirspurn gildir greinilega ekki þegar kemur að hjúkrunarfræðingum. Þessar afleiðingar sem nú eru að birtast eru því fyrirséðar og ættu ekki að koma neinum á óvart,“ segir Guðbjörg.
Að hennar sögn eru hjúkrunarfræðingar þreyttir á hversu lítið framlag þeirra til heilbrigðiskerfisins og í COVID-faraldrinum er metið til launa.
„Uppsagnir eru byrjaðar á bráðamóttöku Landspítala og hætta á að slíkt smiti út frá sér eins og gerðist 2013 og virðist því sagan ætla að endurtaka sig. Það er alltaf fórnarkostnaður af uppsögnum og ekki skila allir sér til baka. Kostnaðurinn verður því alltaf meiri eftir því sem uppsögnum fjölgar. Það kostar að hafa stærstu heilbrigðisstéttina í vinnu en heilbrigðiskerfið verður ekki rekið án hryggjarstykkisins, það er ljóst,“ segir Guðbjörg.
Hún kallar eftir því að ný ríkisstjórn, sem enn hefur ekki verið mynduð í kjölfar Alþingiskosninga í september, setji fram framtíðarsýn á það hvernig skuli leysa vandann.
„Nóg er af skýrslunum með lausnum, yfirvöld verða að skuldbinda sig til þess að leysa verkefnið og það tekur meira en eitt kjörtímabil. En nú þarf að hafa hraðar hendur, allir þurfa að koma að borðinu og leysa núverandi stöðu áður en í frekara óefni stefnir. Við viljum ekki standa frammi fyrir því að geta ekki veitt heilbrigðisþjónustu til þeirra sem lífsnauðsynlega þurfa á því að halda, eins og sést víða erlendis. En því miður höfum við nú þegar dæmi um það. Nú verða stjórnvöld að bregðast við!“