Rétt fyrir klukkan eitt í nótt hafði lögregla afskipti af starfsemi veitingastaðar í miðbænum vegna brots á sóttvarnareglum, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Inni á veitingastaðnum voru um það bil 50 manns sem var gert að yfirgefa staðinn.
Samkvæmt gildandi sóttvarnareglum mega veitingastaðir með vínveitingaleyfi hafa opið til klukkan 22 alla daga vikunnar en allir gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn klukkan 23. Í hverju rými mega 50 manns vera.
Því má ætla að brot umrædds veitingastaðar hafi snúið að því að hann heimilaði viðskiptavinum sínum að sitja þar lengur en ríkisvaldið leyfir nú um stundir.
Þá var nokkuð um ölvunarakstur í nótt eins og nóttina þar á undan. Sjö ökumenn voru stöðvaðir, grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna.
Ökumaður á verulegri hraðferð var stöðvaður í miðbænum um miðnætti en hann var á 117 kílómetra hraða á svæði þar sem keyra má á 60.