Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út að heimahúsi í Garðabæ í gærkvöldi vegna hóps barna sem safnast hafði saman fyrir utan heimilið og hafði uppi hótanir gagnvart heimilisfólki.
Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að gert sé ráð fyrir að heimilisfólkið leggi fram kærur vegna málsins á morgun. Málið sé til skoðunar og verður að öllum líkindum unnið í samstarfi við barnavernd, sökum aldurs barnanna.
Vísir greinir frá því að málið varði hótanir frá ólögráða einstaklingum vegna myndskeiðs á samfélagsmiðlinum TikTok. Myndbandið tengist 13 ára samnemanda barnanna og er hann í því sakaður um alvarlegt athæfi.