Kostar sitt að ráða erlenda hjúkrunarfræðinga

Álagið er mikið á Landspítalanum og hefur uppsögnum á meðal …
Álagið er mikið á Landspítalanum og hefur uppsögnum á meðal hjúkrunarfræðinga fjölgað verulega. Ljósmynd/Landspítalinn

Aðspurð segir Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala, talsverðan kostnað fylgja því að ráða erlenda hjúkrunarfræðinga til spítalans. Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið skoðar spítalinn nú að fara þá leið til þess að bregðast við mönnunarvanda á spítalanum. 

„Jú, þau þurfa að vera með tungumálakunnáttuna og við þurfum að leggja mikið í það en starfsaðlögunin tekur líka lengri tíma. Við erum að fylgja þeim mjög stíft eftir,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.

Guðrún segir það hafa verið skoðað að ráða erlent starfsfólk en bendir á Landspítalinn sé nú þegar með mjög mikið af erlendu starfsfólki.   

Berglind Gestsdóttir, sem er ein af hjúkrunarfræðingunum sem hafa sagt upp störfum á bráðamóttöku vegna álags og ósam­ræmis á milli launa og ábyrgðar, sagði í samtali við mbl.is í gær að ráðningar erlendra hjúkrunarfræðinga hefðu gefið góða raun en að þeim fylgdi nokkur auka kostnaður. Ef mögulegt væri að ráðast í þau útgjöld ætti líka að vera mögulegt að greiða þeim hjúkrunarfræðingum sem nú þegar starfa á spítalanum betri laun. 

„Ef að það er hægt, þá er hægt að borga okk­ur betri laun og þá erum við mætt­ar,“ sagði Berg­lind. 

Engar fleiri uppsagnir borist um helgina

Ekki hafa fleiri uppsagnir borist um helgina á meðal hjúkrunarfræðinga sem starfa á bráðamóttöku Landspítalans að sögn Guðrúnar. Uppsögnunum meðal hjúkrunarfræðinga fjölgaði verulega í síðustu viku á bráðamóttökunni eða sem samsvaraði fimm stöðugildum.

„Ég hef ekkert heyrt af neinu síðan,“ segir Guðrún.

Vantar enn ljósmæður

Líkt og mbl.is fjallaði um í gær hefur nú þegar ein ljósmóðir sem starfar hjá einkafyrirtæki svarað kallinu og boðist til að veita spítalanum hjálparhönd en það bráðvantar ljósmæður í bakvarðasveit.

Guðrún segist ekki hafa heyrt af neinum síðan og tekur undir að það vanti fleiri ljósmæður. „Já það væri mjög gott að fá fleiri í bakvarðasveit,“ segir Guðrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert