Kynskiptur vinnumarkaður haldi laununum niðri

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands segir kynskiptan vinnumarkað halda launum sjúkraliða niðri. Hún segir sjúkraliða vissulega hafa fengið að finna fyrir auknu álagi. Þeir séu komnir að þolmörkum varðandi sitt vinnuframlag.

„Þetta er náttúrulega bara mjög alvarleg staða,“ segir hún, en fyrr í mánuðinum birtu tugir sjúkraliða sem starfa á bráðamóttöku Landspítalans opið ákall til stjórnvalda þar sem ástandinu á bráðamóttökunni var lýst sem hættulegu.

„Þetta snýst allt um það sama. Það þarf að tryggja mönnun og flæði á deildinni þannig að starfsemin gangi,“ segir Sandra og bætir við að Sjúkraliðafélagið taki undir áhyggjur hjúkrunarfræðinga en uppsögnum meðal hjúkrunarfræðinga fjölgaði verulega á bráðamóttökunni í síðustu viku.

Sjúkraliðar birtu ákall til stjórnvalda fyrr í mánuðinum.
Sjúkraliðar birtu ákall til stjórnvalda fyrr í mánuðinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þarf að verðmeta störfin í samræmi við hefðbundin karlastörf

„Það sem maður sér fyrir að sé hægt að gera í stöðunni er að það þarf að fara í þá vinnu að leiðrétta kynskiptan vinnumarkað þannig að laun séu metin að jöfnu,“ segir Sandra og bætir við:

Laun eru almennt lægri hjá þeim starfsstéttum þar sem konur eru í meirihluta. Það þarf að verðmeta okkar störf í samræmi við hefðbundin karlastörf. Það er þessi kynskipti vinnumarkaður sem heldur laununum hjúkrunarstétta niðri. Það þarf að setja meira fjármagn inn í reksturinn til að tryggja nauðsynlega mönnun og flæði innan spítalans. Um helmingur útskrifaðra sjúkraliða starfa við fagið og um fjórðungur nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga hverfa til annarra betur launaðra starfa innan fimm ára.

Þessi staðreynd er óhagkvæm fyrir samfélagið sem hefur í gegnum árin viðhaldið aðgreiningu kynjanna á vinnumarkaði og stutt þannig við kynbundinn launamun. Viðvarandi vanmat á vinnuframlagi þar sem konur eru í meirihluta ýtir undir flótta þeirra úr störfum.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, skrifaði í pistli í gær að hjúkrunarfræðingar láti ekki lengur bjóða sér það mikla vinnuálag og starfsaðstæður sem nú eru í boði. Þá sagði hún íslensk yfirvöld greinilega ætla seint að meta störf þessar stóru kvennastéttar og borga þeim laun í samræmi við álag og ábyrgð í starfi.

Búið að vera mönnunarvandi í áratugi

Sandra segir að málið snúist að miklu flóknara úrlausnum en það sem er að eiga sér stað á bráðamóttökunni.

„Það er bara ein birtingarmyndin af því sem er að gerast í kerfinu. Það er náttúrulega búið að vera mönnunarvandi í áratugi hjá þessum stéttum sem sinna hjúkrun og launin eru náttúrulega ástæðan fyrir því. Þetta bara segir sig sjálft,“ segir Sandra að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert