Björgunarsveitir á Vesturlandi voru kallaðar út snemma í morgun vegna karlmanns sem villtist í sumarbústaðahverfi í Borgarfirði.
„Snemma í morgun voru björgunarsveitir á Vesturlandi kallaðar út til aðstoðar lögreglu við leit að manni sem hafði villst í sumarbústaðahverfi rétt norður af Borgarnesi í Borgarfirði. Hann var illa klæddur í éljum og kulda, gat ekki staðsett sig svo björgunarsveitir voru kallaðar til og svo var alltaf fjölgað í hópnum því menn höfðu áhyggjur af því að hann væri þarna illa klæddur í skítakulda,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar.
Davíð segir að maðurinn hafi fundist um klukkan tíu í morgun, en hann hafði þá náð að leita sér skjóls í öðrum sumarbústað.
„Hann fannst svo um klukkan tíu í morgun þegar allar björgunarsveitir á Vesturlandi höfðu verið kallaðar út. Hann fannst í öðrum sumarbústað, hafði rambað á bústaðinn og leitað sér skjóls þar og fannst heill á húfi, hafði eitthvað aðeins skrámað sig við að komast inn í bústaðinn,“ segir Davíð í samtali við mbl.is.
Björgunarsveitir á Suðvesturhorninu voru kallaðar út um svipað leiti og aðgerðum lauk í Borgarfirði vegna erlendra ferðamanna í vandræðum við gosstöðvarnar í Geldingadölum.
„Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna þriggja manna hóps sem var villtur við gosstöðvarnar. Þegar þangað var komið náðist fljótlega aftur samband við hópinn, það hafði rofað til og hópurinn fundið gönguleiðina aftur og komist að sjálfsdáðum niður. Það var hópur af björgunarsveitarfólki sem rakst á tvo ferðamenn sem voru orðnir kaldir og hraktir ofarlega á Langahrygg sem fengu far niður. Þetta fór allt saman vel og það var gott að það hafi verið björgunarsveitarfólk á svæðinu sem fundu þessa ferðamenn,“ segir Davíð.
Þá voru björgunarsveitir kallaðar út vegna báts sem siglt hafði á sker í Stykkishólmi síðdegis í dag. Davíð segir að báturinn hafi fljótt losnað og gat siglt fyrir eigin vélarafni að bryggju.