Miðstöð skóla, menningar og íþrótta

Úlfarsárbraut 122-124. Geysimikið mannvirki, þar sem sameinast kennsla, menningarstarfsemi og …
Úlfarsárbraut 122-124. Geysimikið mannvirki, þar sem sameinast kennsla, menningarstarfsemi og íþróttaiðkun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Merk tímamót verða á næstunni í Úlfarsárdal þegar menningarhús og sundlaugar í dalnum verða tekin í notkun. Stefnt er að opnun mannvirkjanna fyrir næstu áramót.

Úlfarsárdalur er eitt af yngri íbúðarhverfum höfuðborgarinnar. Þar hefur á undanförnum árum verið í byggingu mikið mannvirki við Úlfarsbraut 122-124 sem kallað hefur verið „miðstöð skóla, menningar og íþrótta“ í Úlfarsárdal.

Útisundlaugin. Verður án efa vel sótt af íbúum Úlfarsárdals á …
Útisundlaugin. Verður án efa vel sótt af íbúum Úlfarsárdals á komandi árum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það mun hýsa grunnskóla, leikskóla, frístundaheimili, menningarmiðstöð, almenningsbókasafn, innisundlaug og íþróttahús ásamt útisundlaug. Þá verður á svæðinu knattspyrnuvöllur Fram með áhorfendastúku. Um hönnun sáu VA arkitektar, Landmótun og VSÓ ráðgjöf. Heildarstærð mannvirkjanna verður í kringum 16.000 fermetrar. Heildarkostnaður mannvirkja í Úlfarsárdal, þ.e. leik- og grunnskóla, menningarmiðstöðvar og sundlaugar og íþróttamannvirkis Fram (án knatthúss), er áætlaður um 14 milljarðar króna. Meðfylgjandi drónamyndir sýna vel skipulag byggingarinnar í dalnum.

Fremst á myndinni hér að ofan eru skólabyggingarnar. Leikskólabyggingin var fyrst tekin í notkun, árið 2016. Fyrsti hluti grunnskólans var tekinn í notkun haustið 2018 en grunnskólinn allur haustið 2019.

Litadýrð setur óneitanlega svip á svæðið þegar íþróttamannvirkin í Úlfarsárdal …
Litadýrð setur óneitanlega svip á svæðið þegar íþróttamannvirkin í Úlfarsárdal eru skoðuð úr lofti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þar næst á myndinni koma menningarhúsið og útisundlaugin og efst má sjá íþróttahús Fram og knattspyrnuvelli. Gert er ráð fyrir að fjölnota mannvirki og knattspyrnuvöllur Fram ásamt áhorfendastúku verði fullbúin á næsta ári. Við þau tímamót mun félagið yfirgefa Safamýri og flytja alla sína starfsemi í Úlfarsárdal.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. nóvember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert