Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi segir líklegt að hann muni sitja hjá á fimmtudag, þegar kosið verður um tillögur undirbúningskjörbréfanefndar um uppkosningu í Norðvesturkjördæmi. Hann kveðst þó fyrst vilja sjá greinargerð nefndarinnar áður en hann tekur endanlega ákvörðun.
Undirbúningsnefnd sem fer fyrir rannsókn kjörbréfa mun leggja lokahönd á greinargerð um talningu atkvæða síðustu alþingiskosninga í Norðvesturkjördæmi á morgun. Munu þar tvær tillögur verða lagðar fram. Þykir líklegt að önnur þeirra kveði á um uppkosningu í kjördæminu og hin um staðfestingu seinni talningar kjörbréfa.
Stefnt er að því að þingmenn kjósi um tillögurnar á Alþingi næsta fimmtudag.
Hefur verið til umræðu hvort það þyki við hæfi að Alþingi taki ákvörðun um sitt eigið lögmæti, og þá sérstaklega þeir þingmenn sem hafa hagsmuni af því að seinni talning standi kjósi.
Sigmar er einn þeirra fáu uppbótarþingmanna sem hélt sæti sínu á Alþingi eftir endurtalningu kjörbréfa í Norðvesturkjördæmi. Uppkosning gæti þó mögulega haft þau áhrif að hann missi þingsætið.
„Ég hallast að því að ég muni sitja hjá, því þetta getur haft bein áhrif á mitt þingsæti, en ég vil hins vegar sjá rökstuðning nefndarinnar fyrir kostunum áður en ég met þetta,“ segir Sigmar í samtali við mbl.is.
Ef svo færi að Alþingi myndi ekki fallast á þá tillögu að seinni talning myndi gilda er einungis lagaleg heimild fyrir uppkosningu í því kjördæmi sem talningin fór úrskeiðis. Yrði því ekki kosið á landinu öllu heldur einungis í Norðvesturkjördæmi. Hafa mismunandi skoðanir verið uppi varðandi þetta fyrirkomulag.
Að sögn Sigmars truflar það hann mjög að þetta lagalega úrræði, sem varðar það hvernig bregðast eigi við ágalla í kosningum, sé í eðli sínu mjög ólýðræðislegt. Sé ekki sanngjarnt að kjósendur í einum hluta landsins greiði atkvæði þegar kosningaúrslit liggja fyrir í öðrum kjördæmum.
„Mér finnst þetta lagaúrræði úr sér gengið. Það er samt sem áður leiðin og það er ekkert sem við getum tekið á fyrr en kosningalögum verður breytt en það verður auðvitað ekki gert til að bregðast við þessu klúðri. Þannig já það truflar mig,“ segir Sigmar og bætir við:
„Mér finnst spurningin blasa við okkur: Ætlum við að hafa þetta svona til frambúðar eða ætlum við að breyta þessu?“