Ný millihæð byggð í Svörtuloftum

Hér sést Seðlabankahúsið. Áformað er að lyfta þaki yfir miðrými …
Hér sést Seðlabankahúsið. Áformað er að lyfta þaki yfir miðrými viðbygg­ing­ar (innig­arðs) Kalkofns­veg­ar 1 til þess að tengja hana og aðal­bygg­ingu bet­ur sam­an. mbl.is/Árni Sæberg

Seðlabanki Íslands hefur óskað eftir leyfi Reykjavíkurborgar til að endurbæta og stækka hús sitt Kalkofnsveg 1, sem gjarnan er kallað Svörtuloft. Meðal annars á að lyfta byggingunni upp um heila hæð á afmörkuðu svæði og við það stækkar hún um 500 fermetra. Málinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri á skrifstofu bankastjóra, segir aðspurður að undanfarið hafi staðið yfir viðhald og endurbætur á húsnæði Seðlabanka Íslands við Kalkofnsveg 1. Tímabært var orðið að endurnýja húsnæðið að verulegu leyti. Til að mynda hafa lagnir verið endurnýjaðar að miklum hluta og ýmislegt uppfært, m.a. með hliðsjón af nýjum reglum og stöðlum. Enn fremur hafa rými verið opnuð til að koma fyrir fleira starfsfólki sem fylgdi sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Lokið er endurnýjun tveggja hæða í aðalhluta hússins og unnið er að endurnýjun á tveimur efstu hæðunum.

Þaki yfir miðrými verður lyft

Þá er viðhald og endurbætur eftir á fyrstu hæð hússins. Hluti af endurnýjun hennar felst í því að áætlað er að lyfta þaki yfir miðrými viðbyggingar (innigarðs) til þess að tengja viðbyggingu og aðalbyggingu betur saman. Undir þakinu á miðrýminu sé talsvert pláss sem ekki hafi nýst til þessa, enda ekki lokað að fullu fyrir veðri og vindum. Við þá framkvæmd er áætlað að nýtt 500 fermetra milligólf eða hæð verði til sem fyrst og fremst á að rúma gangvegi og nokkur fundarherbergi.

„Það þarf hvort eð er að skipta um þak í þessum miðhluta hússins og því er áformað að nýta tækifærið og tengja byggingarnar betur saman til að ná flæði á milli þeirra, en um leið aukast nýtingarmöguleikar á því húsnæði sem nú er nýtt sem aðalinngangur og móttökusalur bankans,“ segir Stefán Jóhann.

Hinn 4. nóvember 2019 birti Morgunblaðið frétt um að skipulagsfulltrúinn í Reykjavík hefði tekið til afgreiðslu umsókn Seðlabanka Íslands um hækkun hússins á lóð nr. 1 við Kalkofnsveg (Svörtuloft) að hluta til um tvær hæðir, samkvæmt tillögu arkitektastofunnar Arkþings ehf. Fréttin var byggð á gögnum sem Arkþing sendi til borgarinnar fyrir hönd Seðlabankans.

Nokkrum dögum síðar birtist svo viðtal við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra í Fréttablaðinu þar sem hann vísaði því á bug að framkvæmdirnar væru áformaðar. Bankinn vildi aðeins kanna hvort sá möguleiki væri fyrir hendi að hækka Seðlabankahúsið.

Svör Stefáns Jóhanns hér að ofan sýna að nú er alvara á ferðum hjá bankanum. Nýjasta fyrirspurnin er ekki könnun, heldur stendur til að breyta og stækka Svörtuloft.

Bygging hússins hófst árið 1984. Guðmundur Kr. Guðmundsson og Ólafur Sigurðsson eru arkitektar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka