Saumaskapur þjálfar jákvætt hugarfar

Sigríður í saumaherberginu við verk sitt „Skyldi þetta verða harður …
Sigríður í saumaherberginu við verk sitt „Skyldi þetta verða harður vetur?“ mbl.is/Margrét Þóra

Bútasaumskonan Sigríður Jóhannesdóttir lauk nýverið við stólu, sem hún byggði á draumi Kristínar, systur sinnar, og saumaði til minningar um hana. „Verkið var tilbúið um tveimur og hálfu ári eftir að ég hófst handa fyrir alvöru með því að teikna söguna.“

Sr. Aðalsteinn Þorvaldsson, sóknarprestur í Grundarfjarðarkirkju og tengdasonur Kristínar, bað hana að gera stólu að eigin vali fyrir margt löngu, eins og fram kemur í frétt um málið á vef kirkjunnar (kirkjan.is). Hann segir að þar sem hann hafi aldrei hitt tengdamóður sína, því hún hafi dáið áður en hann kynntist Línu Hrönn Þorkelsdóttur, konu sinni, sé stólan sér einstaklega kær. „Hún [Sigríður] ákvað að fara þessa leið og fyrir vikið er stólan miklu persónulegri en ella, því frá því við konan mín kynntumst hefur Kristín verið stór hluti af lífi mínu.“

Draumurinn sat í henni

Kristín dó úr krabbameini 1997, tæplega 44 ára að aldri. Sigríður segir að þær hafi verið mjög nánar og draumur sem Kristínu hafi dreymt og hún sagt sér frá um hálfu ári fyrir andlátið hafi setið í sér. „„Ég er viss um að ég á eftir að komast í gegnum þetta,“ sagði hún og sagði mér síðan drauminn.“

Samkvæmt draumnum var Kristín á gangi með tveimur konum í óþekktu umhverfi. Leiðin lá upp fjall eftir einstigi og gekk Kristín fremst. Þegar hún leit við sá hún að sú sem aftast gekk var horfin. Síðar frétti hún að konan væri dáin. Hinar héldu áfram í fjölbreyttu landslagi og þegar þær voru komnar ofarlega leit Kristín aftur til baka og þá var hin konan líka horfin. Þá vissi Kristín að hún hafði læknast. Kristín gekk á fjallstoppinn. Þar var lítill gróður en henni leið mjög vel í birtunni sem þar var. „Þannig endaði draumurinn og hún sagðist vera viss um að fyrst hún komst upp á fjallið og sá svona mikla birtu hlyti hún að læknast. Það var hennar túlkun en því miður rættist hún ekki,“ segir Sigríður.

Sr. Aðalsteinn Þorvaldsson með stóluna í Grundarfjarðarkirkju.
Sr. Aðalsteinn Þorvaldsson með stóluna í Grundarfjarðarkirkju. mbl.is/Margrét Þóra

Að fengnu samþykki prestshjónanna Aðalsteins og Línu Hrannar Þorkelsdóttur, dóttur Kristínar, um að byggja verkið á draumnum kynnti Sigríður sér stólur, sem eru hluti af messuklæðum, og hófst handa. Hún segist lengi hafa velt fyrir sér hvernig stólan ætti að líta út. „Ég fór marga hringi og að lokum ákvað ég að hafa engin trúarleg tákn nema hvað ég setti daufar útlínur af dúfu á bakhliðina.“ Hún hafi valið mismunandi efni víðs vegar að og ákveðið að hafa konurnar í mismunandi litum.

„Ég þurfti oft að rekja upp, snúa við og færa til,“ heldur Sigríður áfram. „Við erum sjómannsdætur og því hefst sagan í fjörunni og fikrast upp fjallið, en ég hafði stóluna hvíta svo nota mætti hana við flestar athafnir í kirkjunni.“

Sigríður segir að vinnan hafi verið skemmtileg og heillandi. „Það er sérstaklega gaman að sauma handa fjölskyldu sinni. Þegar saumað er fyrir einhvern koma aldrei neikvæðar hugsanir og því þjálfar saumaskapurinn jákvætt hugarfar. Hann er því til góðs jafnt í sorg sem gleði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert