Rósa Magnúsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, sendi á dögunum frá sér bókina Kristinn og Þóra: Rauðir þræðir, þar sem lífshlaup Kristins E. Andréssonar og Þóru Vigfúsdóttur konu hans er sett í samhengi við menningarstarf sósíalista allt frá fjórða áratugnum og „menningarstríðið“ sem geisaði milli stórrisaveldanna á tímum kalda stríðsins. Rósa ræddi við Sunnudagsblað Morgunblaðsins um bók sína, hlutverk Kristins og Þóru í framlínu menningarstríðsins, auk þess sem hún ræddi um nýlegar frásagnir þolenda af meintum kynferðisbrotum Kristins.
Eitt af því sem skín í gegn við lestur bókarinnar er hin einlæga aðdáun Kristins og Þóru á Jósef Stalín. Rósa segir að hægt sé að segja að Stalín hafi verið þriðji maðurinn í hjónabandinu, og ekkert hafi haggað þeim hjónum í staðfastri trú sinni á Sovétleiðtogann. „Kristinn fer í fyrsta sinn til Sovétríkjanna árið 1934, og myndar sér þar skoðun á Stalín og uppbyggingu sósíalismans í Ráðstjórnarríkjunum, sem hann víkur svo aldrei frá,“ segir Rósa. „Hann segir það hreint út aftur og aftur að þær fórnir og þeir glæpir sem framdir voru í Sovétríkjunum hafi verið nauðsynlegur hluti af uppbyggingu kommúnismans í Sovétríkjunum, og þar af leiðandi framgangi hans í heiminum.“
Rósa nefnir sem dæmi að leyniræða Krústsjoffs árið 1956 þar sem hann fordæmdi glæpi og ógnarstjórn Stalíns, hefði ekki haggað trú þeirra Kristins og Þóru á Stalín, og ekki heldur innrásin í Ungverjaland síðar sama ár. „Og þegar þau fóru saman til Kína árið 1959 fékk Kristinn sömu uppljómun og hann hafði fengið í Sovétríkjunum árið 1934, jafnvel þó að Skúli Magnússon, sem þar var í námi hefði sagt þeim báðum frá hungursneyðinni sem þar ríkti í kjölfar efnahagsáætlunarinnar sem kennd var við „stóra stökkið“ og leitt til þess að milljónir manna létu lífið.“
Rósa nefnir einnig að þau hjón hafi haldið sínu striki eftir vorið í Prag árið 1968 og innrás Sovétmanna til að kveða það niður, en sá atburður hafði mikil áhrif á þróun vinstrihreyfingarinnar hér á landi og vakti upp mikla andstöðu meðal róttæklinga gagnvart Sovétríkjunum. En Kristinn sat þá eftir, gallharður Stalínisti sem fyrr.
Rósa nefnir að á þessum árum hafi Sovétmenn sett á blað áhyggjur sínar af Kristni. „Ég er með nokkur skjöl frá Moskvu sem sýna að Sovétmenn áttu í vandræðum með hvað Kristinn var mikill Stalínisti, því að hann var orðinn kaþólskari en páfinn og fylgdi ekki þeirri línu sem þeir höfðu á þeim tíma gagnvart Stalín.“ Á sama tíma og Sovétríkin færðust frá því að vera alræðisríki og í átt að nokkurs konar valdboðsstefnu sat Kristinn fastur við sinn keip. „Og Sovétmenn segja það í skjölunum að hann segi fullum fetum að það muni sannast þegar fram líði stundir að Stalín hefði haft rétt fyrir sér. Hann tók ekkert mark á gagnrýni á Stalín, ekki einu sinni þegar hún kom frá Sovétmönnum sjálfum!“ segir Rósa.
Hún bætir við að Þóru hafi dreymt Stalín, Lenín og alla þessa helstu ráðamenn með reglulegu millibili og skrifað um þá í dagbækur sínar. „Ég þurfti aldrei að fletta langt í dagbókunum þar til ég rakst á Stalín.“
Í viðtalinu ræðir Rósa einnig nýlegar frásagnir þeirra Guðnýjar Bjarnadóttur og Margrétar Rósu Grímsdóttur, þar sem þær lýstu alvarlegum brotum Kristins gegn sér þegar þær voru einungis börn að aldri.
Rósa segir þar meðal annars að hún styðji það fullkomlega að þolendur Kristins stígi fram og lýsi upplifun sinni. Þá hafi aldrei vakað fyrir sér með bók sinni að hefja Kristin upp eða þau hjónin á nokkurn hátt, heldur sé hún skrifuð til þess að skilja hvers vegna fólk gekk kommúnisma á hönd á millistríðsárunum og hélt áfram að vera kommúnistar, sama hverju á gekk.
Ítarlegt viðtal er við Agnieszku og Ólöfu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.