Töfrar fram gersemar úr gömlu garni og gallabuxum

Rakel á sjálf ketti og vildi gera útbúa eitthvað notalegt …
Rakel á sjálf ketti og vildi gera útbúa eitthvað notalegt fyrir kettina hjá Villiköttum. mbl.is/Unnur Karen

Handavinnukonan Rakel Rut Guðmundsdóttir er einstaklega nýtin og sniðug að endurvinna gamlar flíkur og efni og breyta því í fallega og nytsamlega hluti, gjarnan öðrum til góðs. Bæði mönnum og dýrum. Hún elskar að gramsa á nytjamörkuðum, en óskar líka eftir garni og efnum frá öðrum, sem annars myndi kannski fara í ruslið.

Rakel hefur meðal annars verið að sauma lítil kattateppi sem hún hefur gefið dýraverndunarfélaginu Villiköttum þar sem þau nýtast meðal annars í búrin sem kettirnir eru veiddir í og undir kettlinga.

Hér má sjá haug litríkum og notalegum kattateppum sem Rakel …
Hér má sjá haug litríkum og notalegum kattateppum sem Rakel fór nýlega með til Villikatta. Ljósmynd/Aðsend

Hún er mjög fljót að prjóna og vantaði nýtt verkefni. „Ég er búin að vera mjög dugleg að prjóna teppi fyrir sjálfa mig en ég er orðin leið á því. Ég á líka orðið nóg af teppum en langaði að gera eitthvað skemmtilegt. Svo á ég sjálf ketti,“ útskýrir Rakel í samtali við mbl.is, en þannig kviknaði hugmyndin.

Langar helst að gefa öllum 

Í stað þess að troðfylla heimilið af teppum ákvað hún að nýta kraftana fyrir kettina. „Ég elska ketti og langaði að gera eitthvað fyrir þá. Ég óskaði því eftir afgangsgarni og fékk alveg óheyrilega mikið. Ég er enn að prjóna og það er nóg eftir,“ segir Rakel, en hún fór nýlega með 75 kattateppi til Villikatta.

Kettir Rakelar njóta líka góðs af prjónaskapnum.
Kettir Rakelar njóta líka góðs af prjónaskapnum. mbl.is/Unnur Karen

Lítið var eftir á sumum garndokkunum sem hún fékk og garnið hefði því líklega ekki nýst í hefðbundnari prjónaverkefni. Það kemur hins vegar ekki að sök í verkefni Rakelar því teppin verða bara litríkari fyrir vikið. Sem er einmitt það sem hún vill. „Ég reyni að hafa þau mjög skrautleg ef ég get.“

Rakel elskar að gramsa á nytjamörkuðum og finna litrík efni.
Rakel elskar að gramsa á nytjamörkuðum og finna litrík efni. mbl.is/Unnur Karen

Hún segir starfsmenn Villikatta hafa verið þakkláta fyrir teppin og þau hafi komið sér vel. „Ég spurði starfsmann að því og þau hafa verið mjög ánægð með þetta. Ég ætla því að halda áfram. Ég prjóna líka úr lopa, sem er það besta sem þau fá. Svo fór ég norður í sumar og þá fengu Villikettir á Norðurlandi slatta. Mig langar helst að gefa öllum,“ segir hún hlæjandi.

Elskar að blanda saman litum 

En Rakel prjónar ekki bara kattateppi í tonnavís heldur saumar hún líka axlatöskur og poka úr gallabuxum og fleiri efnum. „Ég elska að blanda saman litum þannig þeir eru svolítið skrautlegir og flottir. Ég hef svo gaman af því að fara á nytjamarkaði og gramsa, finna gömul efni og buxur. Ég er alveg óð í það. Ég byrjaði á að gera litla skyrtupoka en svo færði ég mig yfir í gallabuxurnar.“

Rakel bæði selur pokana og gefur þá nytjamörkuðum undir vörur …
Rakel bæði selur pokana og gefur þá nytjamörkuðum undir vörur sem fólk verslar. mbl.is/Unnur Karen

Rakel hefur bæði verið að selja pokana og gefa á nytjamarkaði svo þeir geti nýst undur vörur sem fólk verslar. „Það er svo gott ef einhver getur nýtt þetta. Mér finnst svo gaman að sauma úr svona gömlum efnum.“

Núna er hún mikið að vinna í jólapokum og er með ýmsar fleiri hugmyndir, en svo saumar hún líka slefsmekki fyrir ungabörn úr nýjum efnum.

Hún viðurkennir að áhugamálið taki töluvert pláss á heimilinu, enda er hún dugleg að sanka að sér efnivið í handverk sitt. Það vandamál leystist hins vegar á farsælan hátt. „Sonurinn fór í nám og þá fékk ég aukaherbergi, þannig komin með góða aðstöðu,“ segir hún kímin.

mbl.is/Unnur Karen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert