28 fundir hjá „löngu tímabæru“ landsráði

Heilbrigðisstarfsmaður á Landspítalanum.
Heilbrigðisstarfsmaður á Landspítalanum. Ljósmynd/Landspítalinn/Þorkell

Landsráð, sem er ætlað að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu, hefur fundað 28 sinnum síðan það var skipað af heilbrigðisráðherra fyrir um hálfu ári síðan.

Þegar tilkynnt var um skipan ráðsins til fjögurra ára í vor kom fram að það skyldi funda að minnsta kosti 20 sinnum á ári. Að sögn Báru Hildar Jóhannsdóttur, formanns landsráðs, hefur það fundað 10 sinnum sín á milli síðan það hóf störf og þar að auki hefur það fundað 18 sinnum með hagsmunahöfum. Fyrsti fundurinn var haldinn 9. júní.

Frá fyrsta fundi landsráðs í júní.
Frá fyrsta fundi landsráðs í júní. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ráðinu er ætlað að vera ráðgefandi fyrir heilbrigðisráðherra. Það hefur skilað fjórum minnisblöðum til ráðherra varðandi tillögur í ýmsum málum síðan það hóf störf og það fimmta er væntanlegt. Það snýr að verkaskiptingu heilbrigðisstétta. Ráðherra hefur til þessa samþykkt tillögur ráðsins nánast óbreytt, að sögn Báru Hildar.

„Við höfum fengið til okkar allmörg mál sem við höfum forgangsraðað. Yfirleitt eru þau skilgreind frá ráðherra og starfsmönnum heilbrigðisráðuneytis og oftar en ekki með tímamörkum,“ segir hún.

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Unnur Karen

Í lok september skilaði ráðið tillögum um fjármögnun sérnáms til heilbrigðisstofnana. Eftir það fékk ráðið á borð sitt mál varðandi verkaskiptingu á milli heilbrigðisstétta með sérstakri áherslu á störf sjúkraliða og eru tillögur vegna þess á teikniborðinu. Þær eiga að liggja fyrir innan skamms og verða þá sendar ráðherra.

Einnig hefur ráðið skilað inn minnisblaði um hjúkrunarfræðinga og mönnun þeirra á gjörgæsludeild eftir að hafa fengið sérstaka beiðni um það í ágúst og hefur tilkynning þess efnis verið birt á vef heilbrigðisráðuneytisins. Jafnframt skilaði ráðið tillögum í lok júní um mál sem það vildi að sett yrðu í forgang varðandi mönnun og menntun, þvert á heilbrigðisstofnanir, á landsvísu. Samtals hefur landsráð fengið til sín átta mál með formlegum hætti síðan það var sett á fót.

Orðið löngu tímabært 

Fulltrúar frá heilbrigðisstofnunum, heilsugæslunni, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, embætti landlæknis, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og háskólasamfélaginu skipa landsráð, auk Báru og tveggja starfsmanna. „Þetta er breiður hópur sem kemur víðs vegar að og hefur víðtæka sýn. Við leggjum það í okkar vana að tala mikið við hagsmunaaðila eins og sést kannski á fjölda funda sem við höfum átt með þeim. En það er augljóst að mínu mati að það var löngu orðið tímabært að stofna slíkt ráð miðað við fjölda mála sem við höfum haft hjá okkur og bíða okkar til umfjöllunar,“ greinir Bára frá og tekur fram að landsráð hafi verið í deiglunni í alllangan tíma, löngu fyrir kjörtímabil núverandi ríkisstjórnar.

Ljósmynd/Landspítalinn

Alls á ráðið eftir að taka fyrir fjögur mál sem eru á borði þess sem varða heilbrigðisstéttir almennt. Málin snúast um tengsl við menntun, fjölgun í ákveðnum hópum og skipulag menntunar hjá öðrum.

Mannaflagreining til framtíðar

Mikil umræða hefur verið undanfarið um skort á hjúkrunarfræðingum á Landspítala. Bára segir landsráð skoða þau mál en bendir einnig á að verið sé að vinna mikilvæg mál inni í ráðuneytinu sem snúi að mannaflagreiningu til framtíðar, meðal annars í tengslum við menntun. „Við erum að taka mið af öllum þessum þáttum þegar við horfum á einstök mál.“

Spurð út í mönnun í heilbrigðiskerfinu almennt segir Bára ráðið horfa á alla þræði í keðjunni, til dæmis hvort starfsfólk geri eitthvað sem einhver annar ætti í raun að vera að gera, hvort ferlar séu skýrir, hvort tæknin sé að hjálpa til við störfin, hvernig störfin séu unnin og hvort hægt sé að gera þau með öðrum hætti. „Við í landsráði förum ekki varhluta af fréttum sem eru daglega um heilbrigðiskerfið og erum að fylgjast með þeim og vakta,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert